138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Lýðræðisást hæstv. utanríkisráðherra er þvílík að hann hreykti sér af því í gær að vera konungur málþófsins, hreykti sér af því að hafa haldið fleiri klukkutíma ræður og þekkti málþófið þegar hann sæi það. Þessi sami lýðræðissinni skopast reyndar að flokkum sem eru í stjórnarandstöðu með því að brigsla, svo ég noti orð sem hæstv. iðnaðarráðherra kallaði fram í áðan, Framsóknarflokknum og Hreyfingunni um að vera leidd í einhverjum doða af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst þetta mjög ósmekklegt. Verið er að tala um virðingu og vanda Alþingis. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að hlusta á eigin orð og gæta að því hvað hann segir í umræðum vegna þess að mér þykir það mikil óvirðing við aðra stjórnmálaflokka (Forseti hringir.) að láta að því liggja að þeir hafi ekki sjálfstæða skoðun og sjálfstæða stefnu. (Utanrrh.: ... Framsóknarflokkinn í þessu máli.) (Gripið fram í.)