138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það strax í upphafi svo það fari ekkert milli mála að ég geri ekki athugasemdir við frammíköll hæstv. ráðherra. Þetta er hér um bil þeirra eina framlag til þessarar umræðu, margra hverra. Það er að vísu dálítill skaði að þessi frammíköll rata ekki alveg nægilega vel inn í þingsköpin en ég held að það sé skaði sem við komumst yfir.

Að öðru leyti vil ég segja að ég skil ekki alveg hvernig á að taka á þessum málum af hálfu hæstv. forseta og ríkisstjórnar. Það liggur fyrir og hefur komið fram margoft að það er engin þörf á því að afgreiða þetta Icesave-mál núna í einum hvelli. Það hefur komið fram hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins að það sé alveg í lagi að ræða þetta mál t.d. fram í febrúar. Hins vegar liggur alveg fyrir, og því erum við öll með á, að það þarf að afgreiða fjárlögin og hluti af því er auðvitað tekjuöflunarþátturinn þótt hann sé ekki mjög densilegur, eins og stundum er sagt fyrir vestan, en engu að síður þarf að ræða það og komast að niðurstöðu. Það er eitthvað sem við þurfum að klára fyrir áramótin og ég skil ekki þessa meinbægni og þessa undarlegu þráhyggju ríkisstjórnarinnar og hæstv. forseta (Forseti hringir.) að vilja ekki beita því valdi sínu að breyta dagskrárröðinni til að greiða fyrir þingstörfum. Af hverju þarf alltaf að reyna að sigla öllu í strand þegar hægt er að leysa málin? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)