138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mér þykir leiðinlegt hvaða svipur er á þeirri umræðu sem hér um ræðir þegar þingmenn Framsóknarflokksins eru óbeint vændir um það af hálfu hæstv. utanríkisráðherra að sinna ekki þingstörfum. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa trúlega talað hvað mest um það mál sem hér um ræðir og ég held það til að mynda að þingmenn Samfylkingarinnar eða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ættu að sinna þingstörfum sínum með þeim hætti að sómi væri að. Hér töluðum við í gærkvöldi fyrir tómum sal hér um bil og ég sit ekki undir því að við framsóknarmenn séum vændir um að sinna ekki störfum okkar og líka að vera taldir litlir menn eða lítill flokkur. Það er ekki hæstv. ráðherrum til sóma en það er að verða fremur regla en undantekning hjá hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að vera með skæting úr ræðustól Alþingis. Það er kannski þess vegna (Forseti hringir.) sem virðing þingsins er með þeim hætti sem raun ber vitni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)