138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að við þingmenn þurfum að passa okkur að vera ekki mjög stóryrtir í ræðustól. Ég tek undir það sem þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa sagt um það. Síðan vil ég líka segja að við þurfum öll í þessum sal að líta í eigin barm, hvert einasta okkar. Ef við ætlum að halda þessu svona áfram verður þetta enn þá meiri vitleysa en þetta er. Það er eitt sem við gætum breytt við stjórn þingsins, ég beini því vinsamlega til hæstv. forseta að það þyrfti að liggja fyrir núna hvað við ætlum að funda lengi í dag og hvað við ætlum að vera hér lengi á morgun. Þetta eru algerlega óásættanleg vinnubrögð að við skulum ekki fá að vita það. Það er fullt af fólki sem þarf að fara út á land og gera ýmsar ráðstafanir og við þurfum að breyta þessum vinnubrögðum. Það gæti þá orðið til þess að við kæmumst eitthvað áfram í umræðunni. En fyrst og síðast vil ég segja þetta, frú forseti: Við skulum bera virðingu fyrir skoðunum hver annars og gæta okkar í orðavali. Það er í okkar höndum að vinna aftur virðingu Alþingis og hætta þessum skrípalátum sem margir hverjir hafa verið með, (Forseti hringir.) bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)