138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Tillaga stjórnarandstöðunnar var kolfelld í gær en menn virðast kvíða því að ræða Icesave-málið, þetta stærsta mál sem við ræðum núna. Ég ætla ekki að efna til umræðu um hvernig það er til komið, ég get gert það síðar. (Gripið fram í.) Ég vil aðeins vekja athygli á að í dag, (Gripið fram í.) 27. nóvember, er á dagskrá þingsins þingfundur sem áætlaður var á dagskrá sem birt var fyrir miðjan september. Á þessari stundu stendur þó yfir miðstjórnarfundur Sjálfstæðisflokksins. Halló, halló, eiga þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki að vera á þingfundi? Hvernig dettur sjálfstæðismönnum í hug að setja miðstjórnarfund á löngu auglýstan þingfundardag. Er það ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að sjálfstæðismenn vilja ekki mæta og taka þátt í þeirri umræðu sem er samkvæmt þeirri dagskrá sem sett er upp? (Gripið fram í.)

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, virðulegi forseti, af því að í gær var þess krafist að menn væru í salnum þegar þingfundur stendur yfir. Ég tók eftir því hve fáir voru í salnum í gær, ekki bara af stjórnarsinnum heldur líka úr stjórnarandstöðunni. (Gripið fram í: … í fyrsta sinn í þessu máli.)