138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (frh.):

Virðulegi forseti. Það passar, nú fara stjórnarliðar úr þingsal. Þeir hafa ekki áhuga á að taka þátt í þessari umræðu eða að hlusta á sjónarmið annarra en sjálfs sín, hver svo sem þau kunna að vera.

Þegar ræðu minni lauk í nótt hafði ég lokið við að fara lauslega yfir álitamál sem ég hef komið auga á, sem er munurinn á föstum og breytilegum vöxtum. Það liggur ljóst fyrir að efnahagsástandið í heiminum er nú þannig að vextir eru í sögulegu lágmarki og munu verða það einhver næstu missiri, kannski, tvö, þrjú, fjögur ár, og síðan munu þeir væntanlega hækka. Það berast ógnvænlegar fréttir utan úr heimi núna og ef ég væri í hæstv. ríkisstjórn sæti ég núna á fundi að skipuleggja viðbrögð við því ef allt færi á versta veg. Það virðist vera sem svo að Dubai sé að falla líkt og Ísland í október í fyrra og það mun hafa gríðarlega mikil og neikvæð áhrif á efnahagslíf heimsins.

Jafnframt gefur það til kynna að það muni teygjast úr heimskreppunni sem gefur þá enn meiri ástæðu til að ætla að vextir í heiminum verði lágir næstu missiri og ár. Þannig er mál með vexti að skuldbindingar vegna Icesave-samkomulagsins munu greiðast niður á næstu sex árum, það er liðið rúmlega eitt ár frá hruninu. Stabbinn verður mestur í fyrstu en fer síðan lækkandi eftir því sem þrotabú Landsbankans greiðir af skuldunum. Það er því mikið til þess vinnandi að lágir vextir verði nýttir í upphafi meðan skuldirnar eru mestar. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þessu gjörningaveðri sem er í heiminum núna mun slota og að í framtíðinni muni vextir hækka aftur. Eflaust verða breytilegir vextir hærri en vextirnir á þessu svokallaða Icesave-láni, sem eru fastir, 5,55%, en það mun gerast nægilega langt inni í framtíðinni til að það margborgi sig fyrir okkur að hafa breytilega vexti á þessu láni.

Mikið hefur verið fjallað um að það hafi verið fagaðilar og sérfræðingar sem hafi komið að málum við að ákvarða hvernig vaxtakjörum verði háttað. Fyrir valinu urðu svokallaðir CIRR-vextir, fastir 5,55% vextir. Vaxtakostnaðurinn af Icesave-skuldbindingunni fæst ekki viðurkenndur sem forgangskrafa og fellur því allur á innstæðutryggingarsjóðinn og að lokum á ríkið miðað við 90% innheimtur í þrotabúi Landsbankans. Hann nemur um 183 milljörðum kr. Vextirnir verða 210 milljarðar kr. miðað við 90% innheimtur og eftirstöðvar höfuðstólsins verða 67 milljarðar. Munurinn á þessu eru rúmir 93 milljarðar og það er til mikils að vinna ef við gætum sparað einhverja slíka upphæð. Ef við gefum okkur að vextir væru breytilegir og vextir mundu vera lágir í upphafi og hækka svo jafnt og þétt fram til ársins 2016 er auðvelt að reikna út hverjir vextirnir gætu orðið. Miðað við sömu forsendur og notaðar eru í útreikningum, miðað við föstu vextina, sýna útreikningar að breytilegir, uppsafnaðir vextir munu verða um 116 milljarðar í lok tímabilsins. Í þessum útreikningum og þeim breytilegu vöxtum sem ég hef miðað við eru breytilegu vextirnir hækkaðir mjög ríflega og þeir munu fara upp í 7% núna á næstu sex árum. Ef það væru 7% vextir, sem er mun hærra en föstu vextirnir, 5,55%, mundi það benda til þess að það væri mikil þensla í heiminum og mikill atgangur, sem væri gott. En ég hef notað mjög ríflega forsendu til að sýna fram á að þrátt fyrir að vextir hækki mjög hratt og verði mjög háir mun margborga sig að vera með breytilega vexti.

Okkur hefur verið bent á það af hæstv. fjármálaráðherra og af hæstv. forsætisráðherra að það hafi verið fagaðilar sem hafi ráðlagt þetta. Ég tel mig hafa verið ágætlega inni í þessum Icesave-málum alveg frá því að þau komu til kasta þingsins núna í vor. Ég hef ekki séð neina faglega úttekt á því hvernig þessi ákvörðun var tekin. Það er einungis vísað til fagaðila, til Seðlabankans, en það eru engir útreikningar, engin röksemdafærsla eða neitt sem liggur fyrir þessari ákvörðun, engin gögn. Þess vegna hvarflar það óneitanlega að manni að því hafi einfaldlega verið slegið fram að það væri fínt að fá fasta vexti, 5,55%, án þess að menn hafi hugsað málið til enda. Það hljómar þannig. Það á ekki að koma neitt sérstaklega á óvart vegna þess að í mörgum tilvikum hefur það einmitt verið gert að kastað hefur verið til höndunum í ákvörðunum í þessari samningagerð.

Ég tel að meðal stærstu mistakanna við Icesave-samningana hafi verið þegar samninganefndin og stjórnvöld tóku ákvörðun um að gera þetta að einkaréttarsamningi, þ.e. að það væri stofnunin, tryggingarinnstæðusjóður, sem gerði samninginn og að hann mundi lúta einkaréttarfyrirkomulagi í stað þess að fara út í þjóðarrétt þar sem eitt ríki mundi semja við annað á pólitískum forsendum. Einhverjum í samninganefndinni þótti þetta mjög klókt. Þetta var kallað Landsbankaleiðin og talað um þetta af mikilli hrifningu og aðdáun. En hvaða afleiðingar hafði þetta í för með sér? Þetta hafði þær afleiðingar t.d. að við fengum þessa vaxtaprósentu, CIRR-vexti, þessa 5,55% föstu vexti. Það eru sem sagt hámarks- eða lágmarksvextir sem ríki má lána einkafyrirtækjum á án þess að það teljist til ríkisstyrkja, til þess að forðast svokallað ,,dumping“ og annað slíkt hjá þjóðríkjum. Þetta eru sem sagt kjörin sem voru sett á.

Það eru fleiri hlutir. Alls konar ákvæði eru inni í lánasamningnum og stafa af þessu einkaréttarfyrirkomulagi sem koma allverulega spánskt fyrir sjónir þar sem þetta er í raun samningur á milli þjóðríkja, eins og hefur berlega komið í ljós þegar við tölum um að semja við Breta, Hollendinga o.s.frv. Þessi atriði sem leiða af því að þetta er einkaréttarfyrirkomulag. T.d. eru skilyrði þarna inni, svokallaðir „covenantar“ sem eru alþekktir í einkaréttarsamningum, þannig að t.d. ef eitthvert af fyrirtækjum ríkisins eða ríkið sjálft getur ekki staðið í skilum falla samningarnir. Þetta var í þessum lánasamningi sem var byggður á þessari frábæru Landsbankaleið. Jafnframt eru þarna ýmiss konar undarlegir hlutir sem væru eðlilegir ef um einkafyrirtæki væri að ræða en koma mjög undarlega út fyrir þjóðríki að semja um.

Aftur að vöxtunum. Hvað mundi þetta þýða fyrir okkur? Hver er munurinn á þessum föstu og breytilegu vöxtum t.d. eftir ár? Miðað við 90% innheimtur og gengisforsendur er miðað við að vaxtabyrðin sem myndast á árinu 2009 sé 37,4 milljarðar. Ef um væri að ræða breytilega vexti og forsendur mundi vaxtabyrðin sem myndaðist nema um 6,7 milljörðum. 35,3 árið 2010 á móti 12,1, 32,7 á móti 16,1 árið 2011, 31,3 á móti 19,7 árið 2012, 29,4 á móti 22,4 árið 2013, 22 á móti 18,5 árið 2014 og að lokum 21,3 á móti 20,4 árið 2015. Árið 2016 breytist þetta í höfuðstólsgreiðslu sem ber síðan vexti sem ég hef ákveðið að fjalla ekki sérstaklega um hérna.

Eftirstöðvarnar á þessu ári miðað við breytilega vexti eru 183 milljarðar, það er þá með eftirstöðvum höfuðstóls og uppsöfnuðum vöxtum. Það hljómar þó nokkuð mikið öðruvísi en 277 milljarðar. Það hljómar meira að segja þannig að hugsanlega væri hægt að fjármagna það með endurfjármögnun og einhverjum uppsöfnuðum sjóði sem Íslendingar hefðu safnað upp á þessum tíma, kannski með sölu eigna eða öðru slíku. Dæmið verður allt miklu viðráðanlegra. Þessari leið hefur þó raunverulega verið hafnað af samninganefnd ríkisins og ríkinu og þá væntanlega vegna ráðgjafar fagaðilanna sem við vitum ekki hverjir eru og ekkert skriflegt er til um. Það hefur alla vega hvorki verið kynnt þinginu né nefndum þingsins. Þarna sitjum við uppi með 93 milljarða mun og það munar um minna, hæstv. utanríkisráðherra.

Mín skoðun er sú að þrátt fyrir að þetta mál sé komið ansi langt í meðförum þingsins og miklar samningaviðræður hafi átt sér stað við Breta og Hollendinga eigi bara þetta litla atriði — eða það sem virkar sem lítið atriði sem einhverjir fagaðilar hafa ráðlagt — að vera næg ástæða til þess að við getum sameinast um að til þess að tryggja hagsmuni Íslands til framtíðar stígum við núna til jarðar eins og menn, stígum karlmannlega til jarðar og förum fram á að þetta verði endurskoðað. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að því muni fylgja margvísleg vandamál. Það er náttúrlega óþolandi fyrir Hollendinga og Breta að þurfa alltaf að semja upp á nýtt, þingið fellir alltaf og rekur samninganefndina til baka, en við megum ekki horfa í það núna vegna þess að hagsmunirnir eru svo miklir.

Þetta er einungis eitt atriði sem ég hef nefnt hérna. Þið þekkið þau fjölmörgu atriði sem gagnrýnendur samningsins hafa sett fram. Þegar allt þetta er sett saman, öll þessi gagnrýni og allar þessar málefnalegu athugasemdir og ábendingar sem sérfræðingar hafa bent á, er óskiljanlegt að ríkisstjórnin standi ekki í lappirnar og reyni að lagfæra þessi mál heldur taki bara við fyrirskipunum frá Bretum og Hollendingum þvert á vilja þingsins og vilji ganga frá þessu sem fyrst.

Margir hafa nefnt að aðaldrifkrafturinn í því að ríkisstjórnin vilji ekki fara þessa leið sé sá að ef þetta yrði fellt hérna í þinginu mundi ríkisstjórnin springa, að það yrðu endalok ríkisstjórnarinnar. Hún hefði þá sýnt fram á að hún réði ekki við málið. Það getur vel verið að þetta mat sé rétt og eflaust er eitthvað til í þessum ótta stjórnarþingmanna við að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar muni springa ef þetta yrði niðurstaðan. Þá vil ég segja á móti: Er þetta ekki allt of dýru verði keypt til þess að halda saman þessari ríkisstjórn? Ég vil jafnframt segja að ef ég réði, ef ég gæti komið með tilboð til ríkisstjórnarinnar, mundi ég gera þeim það tilboð að þessi ríkisstjórn héldi áfram, við tækjum upp þessa samninga og gerðum það í samvinnu við Framsóknarflokkinn, Hreyfinguna og Sjálfstæðisflokkinn þannig að við værum öll ábyrg fyrir afleiðingunum af þessu. Öll samábyrg.

Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að þetta er allt of dýrkeypt fyrir okkur. Hv. þm. Hreyfingarinnar, Þór Saari, setti þetta mál í gott samhengi síðasta mánudag, held ég það hafi verið eða þriðjudag, í ræðu hér í þinginu. Þar benti hann á vaxtakostnaðinn af þessu ævintýri — það þarf 79.000 Íslendinga til þess að vinna fyrir vaxtakostnaðinum á ári. 79.000 Íslendinga á hverju einasta ári af um 150.000 skattgreiðendum, þannig að helmingur skattgreiðenda er í keðjugenginu að vinna fyrir þessari óráðsíu.

Eitt er það að einkaaðilar settu okkur í þessa stöðu. Það er eitt, og eigi þeir skömm fyrir, en annað er að það var ríkisstjórnin sem bar ábyrgð á þessum samningum. Hún ber ábyrgð á því að litið er fram hjá hlutum eins og þessum. Hér er ég búinn að nefna 100 milljarða. Er nema von að sumum þingmönnum sé heitt í hamsi og kalli gjörðir þessarar ríkisstjórnar kannski óviðeigandi nöfnum hér í þingsal? Ég er tiltölulega rólegur í dag þannig að ég ætla ekki að vera með nein brigslyrði eða stór orð. Aftur á móti vil ég segja að þetta er allt of dýru verði keypt. Við megum ekki láta þetta gerast. Ef það þýðir að ég segi við þá fóstra, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að við í stjórnarandstöðunni munum sjá í gegnum fingur okkar með það, þið getið haldið áfram og við munum koma að þessu máli og hjálpa ykkur í þessu máli til þess að við séum samábyrg, þá segi ég það. Þið getið þá haldið áfram með skattkerfisbreytingarnar ykkar, að stöðva atvinnulífið í landinu og skattleggja hina og skattleggja þessa. Þið getið haldið áfram með það en þetta mál, þetta er allt of mikill kostnaður fyrir okkur. Við verðum að standa í lappirnar. Við getum ekki látið helming tekjuskattsgreiðenda vinna fyrir þessum ósóma næstu árin. Við getum það bara ekki. Það er engin sæmd í því.

Við þingmenn böðlumst hér hver á öðrum en við verðum líka að hugsa um sæmdina. Við verðum að hugsa um að við erum Íslendingar og við eigum að vera stolt af því. Við eigum ekki að láta koma svona fram við okkur og við eigum ekki að koma svona fram hvert við annað heldur eigum við að taka saman höndum í þessu máli, leysa það saman og vera samábyrg. Þá skulum við líka gera það af einhverju viti, ekki með þessum handarbakavinnubrögðum sem hafa verið stunduð. Það er búið að benda á nægilega margar veilur til þess að menn verða einfaldlega að hugsa sitt ráð upp á nýtt.

Ég ætla svo sem ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég get farið yfir aðra ágalla og hvernig þetta mál hefur allt komið til en ég held að ég hafi ekki neinu sérstöku merkilegu við að bæta. Hér hefur stjórnarandstaðan flutt mjög góðar ræður þar sem menn hafa talað hver með sínu nefi og notað sín rök. Margir eiga eftir að tala í dag og á morgun og ég á reyndar eftir seinni ræðu mína sem ég vona að ég fái að halda í heilu lagi. Það er reyndar ágætt að hvíla sig í 40 mínútna ræðum í nokkra tíma og byrja síðan aftur.

Það sem ég vil segja að lokum er að á þessum tilfinninganótum sem ég talaði áðan skora ég á stjórnarliða að hugsa um sæmdina. Hugsa um hvað er að vera Íslendingur og að stundum þarf maður að gera meira en gott þykir. Stundum þarf maður að standa í lappirnar og éta ofan í sig hluti en það er það sem gerir mann að merkilegum manni.