138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hæstv. ráðherra hafi farið fram fyrir mig í andsvörum, hann kemur vonandi síðar í hús og getur þá lýst því yfir sem ég ætlaði að biðja hann um. (Utanrrh.: Ég er búinn að halda gagnmerka ræðu.) Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að lýsa því yfir síðar í dag að ríkisstjórnin falli ekki þótt Icesave frestaðist eða yrði fellt því að það er mjög sérkennilegt að fella ríkisstjórn á slíku ef það er málið.

Þá er mikilvægt að halda því til haga, frú forseti, að Icesave-reikningarnir bólgnuðu út þegar Samfylkingin var með viðskiptaráðuneytið, formennsku í Fjármálaeftirlitinu og að mig minnir varaformann Seðlabankans. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var einmitt viðskiptaráðherra lungann af þessum tíma og við skulum ekki gleyma því þegar verið er að ræða þetta stóra mál, hvað sem ábyrgð annarra líður.

Sá 93 milljarða munur sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi eru gríðarlegir fjármunir sem við getum ekki talað um af léttúð eða horft fram hjá. Ef það er virkilega þannig, og ég trúi því af því að ég veit að hv. þingmaður er mjög fær í sínu fagi, að munurinn sé þessi hljótum við að skoða mjög vandlega að breyta þessum samningi, þótt ekki væri nema bara út frá þessu eina atriði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann einnar spurningar varðandi þetta. Nú er í hans útreikningum, samkvæmt frétt í Morgunblaðinu, horft svolítið á framtíðina, hvernig vextir muni þróast á næstu árum. Það væri ágætt ef hann gæti upplýst mig um hvað sé að baki þessari spá varðandi þessa þróun. Hvers vegna munu vextirnir þróast með þessum hætti? Við þurfum vitanlega að hafa grunn að þessari umræðu, sem ég veit að hann hefur.