138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin er hvert þessir hlutir sem eru að gerast í Dúbaí geti leitt okkur. Það liggur fyrir að emrírinn í Abú Dabí á inni í ADIA rúmlega 650 milljarða dollara. Bráðavandinn í Dúbaí núna á næstu dögum er í kringum 56 milljarða dollara. Aftur á móti hefur verið ágreiningur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um þá stefnu sem Dúbaí hefur tekið. Margir þeirra sem aðhyllast Sharia-lög eða hafa horft til strangari túlkunar á Kóraninum og íslam hafa hugsað sem svo að farið hafi fé betra en Dúbaí. Emírinn í Dúbaí, al-Maktoum, hefur ekki viljað stíga þarna inn til þess að hjálpa Dúbaí við að standa skil á skuldum og annað slíkt þannig að ályktunin sem maður verður að draga er sú að þetta verði látið falla. Hvort þetta fellur eða ekki er þó vandi um að spá.

Það hvort við getum borgað þessar skuldbindingar er grundvallarspurning. Grundvallarsvarið við því er: Ég veit það ekki. Þess vegna þurfum við að setja inn fyrirvara og leita allra leiða til þess að lágmarka það sem við þurfum að borga. Við þurfum fyrirvara sem lágmarka hættuna á því að við lendum í vandræðum. Svarið er þá: Ég veit það ekki.