138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja hæstv. forseta að skoða eitt mál fyrir mig. Klukkan eitt á að hefjast úti í bæ fundur endurskoðunarnefndar sjávarútvegsstefnunnar og á þeim fundi eiga nokkrir þingmenn að vera, m.a. formaður og varaformaður fjárlaganefndar. Ég geri þá kröfu að þeir séu báðir við þessa umræðu, það veitir ekki af því. Þess vegna óska ég eftir því að forseti láti kanna hvort ekki sé eðlilegt að fresta þingfundi, í það minnsta meðan þessi nefnd er að funda um þetta mál, því allir þessir þingmenn annaðhvort vilja taka þátt í umræðunni eða þurfa að taka þátt í henni.

Hitt er annað að þessir ágætu þingmenn sem ég nefndi áðan eru báðir í nefndinni en ég geri meiri kröfu að þeir séu við þessa umræðu og hlusti og taki þátt í henni sem þeir hafa því miður ekki gert. Því legg ég til að forseti beiti sér fyrir að annaðhvort verði nefndarfundinum frestað, sem er eiginlega verra, eða að þessum þingfundi verði frestað að minnsta kosti á meðan nefndarfundi stendur.