138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við reynum við skipulag þingsins að taka tillit til aðstæðna sem koma upp. Það getur auðvitað gerst að aðstæður sem menn sáu ekki fyrir verði þess valdandi að hv. þingmenn geti ekki sótt þingfundi.

Nú sjáum við á þátttökunni í dag að greinilegt er að fundarstörfin rekast mjög á við aðrar skuldbindingar hv. stjórnarliða og það er augljóst að einhverra hluta vegna eiga þeir ekki hægt með að taka þátt í þingstörfum og störfum fundarins í dag. Þess vegna held ég að við félagar hv. þingmanna í stjórnarliðinu eigum að sameinast um að greiða fyrir þingstörfum og auðvelda þeim þingstörfin með því að gera hlé á þessum fundi meðan þannig stendur á í stjórnarliðinu að menn geti ekki tekið þátt í þessari umræðu, sitja ekki undir umræðunum og meðtaka ekki þær upplýsingar sem hafa komið fram sem hafa verið mjög margvíslegar í þessari umræðu í dag. Ég hvet hæstv. forseta að taka þannig tillit til stjórnarliðsins. Ég er ekki að tala um þetta (Forseti hringir.) fyrir hönd okkar stjórnarandstæðinga heldur í hagsbótaskyni fyrir stjórnarliðið (Forseti hringir.) að greiða fyrir því að hnika til þingstörfunum þannig að þeir eigi þess kost (Forseti hringir.) að taka þátt í fundinum.