138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Vegna ummæla síðasta hv. þingmanns, Björns Vals Gíslasonar, er það alveg rétt að þingmenn hafa notað þau tækifæri sem gefist hafa í óundirbúnum fyrirspurnum og störfum þingsins til að kalla eftir svörum frá hæstv. ráðherrum og öðrum ábyrgðarmönnum þessa máls varðandi Icesave-málið, vegna þess að það hefur ekki tekist. Það hefur ekki tekist af nokkru viti í þeirri umræðu sem ætlað er að leiða þetta mál til lykta. Þess vegna hafa menn auðvitað sætt færis þegar t.d. ráðherrar hafa verið viðstaddir við óundirbúnar fyrirspurnir og spurt þá út í atriði sem ekki hafa skýrst í umræðunni en þau eru fjölmörg. Ég hélt að hv. þm. Björn Valur Gíslason tæki þátt í umræðunni meira en hann hefur gert. Það verður þó að virða það við hann að hann tók til máls fyrsta daginn sem þessi umræða átti sér stað en hefur ekki gert það síðan. (Forseti hringir.) Aðrir stjórnarliðar og flokksfélagar (Forseti hringir.) hans mættu taka hann sér til fyrirmyndar í þeim efnum.