138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að mér er vel kunnugt um að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, fylgist mjög vel með þessari umræðu og varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, gerir það einnig.

Ég kveð mér hljóðs aftur undir þessum lið sem ég geri ekki mjög oft en gerði reyndar í morgun og hvatti þá hæstv. forseta til að leggja línur um hvernig menn ætla að halda fundahaldi áfram. Á morgun stendur til að vera með fagnað þar sem á að fagna opnun Óshlíðarganganna, Bolungarvíkurganganna, en það verður ekki mikið um fagnað í þeim efnum á næstu árum því miður. Ég er einn af þeim þingmönnum sem eru mjög þaulsetnir í þessum sal og hef fylgst með ræðum hvort heldur sem er stjórnarandstæðinga eða stjórnarliða. Mér þætti afskaplega vænt um ef frú forseti gæti beitt sér fyrir því að þessi þingflokksformannafundur yrði fyrr en seinna þannig að ég gæti annaðhvort frestað því eða gert ráðstafanir til að ég komist norður á Ísafjörð á morgun.