138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir efnismiklar og málefnalegar spurningar.

Fyrst vil ég nefna að mér er ekki kunnugt um að veitt hafi verið jafnopin og óskilyrt ríkisábyrgð vegna jafngríðarlegrar lántöku og hér um ræðir. Ég hygg — og vona þá að það komi fram leiðrétting síðar í þessari umræðu ef ég fer með rangt mál — að þessi ríkisábyrgð sem er verið að veita eigi sér engin fordæmi í sögu Íslands sem sjálfstæðrar þjóðar. Það kann að vera að mér skjátlist en ég vona þá að einhver komi og leiðrétti mig, ég er tilbúinn að taka rökum og er tilbúinn að viðurkenna að ég hafi rangt fyrir mér ef mér er sýnt fram á það. Ég held þó að þessi opna og óskilgreinda ríkisábyrgð á svona gríðarlegri upphæð eigi sér engin fordæmi í Íslandssögunni.

Eins og við þekkjum gekk viðleitni Alþingis í sumar út á að reyna að setja einhverja öryggisventla, einhverja varnagla, eitthvað sem hald væri í ef hlutirnir þróuðust á verri veg. Ég sé ekki annað en búið sé að veikja þessa öryggisventla, kippa sumum þeirra út og veikja aðra þannig að lítið hald verði í. Þetta veldur mér auðvitað áhyggjum. Hv. þingmaður nefndi að þessi skuldbinding gæti orðið jafnvel 1.000 milljarðar króna en það er ekkert svo fráleitt. Við erum að tala um upphæð sem er á áttunda hundrað milljarða í dag ef ríkisábyrgðin verður samþykkt. Ef frumvarpið verður samþykkt reiknast á það vextir á þessu ári, næsta ári (Forseti hringir.) og þarnæsta og þessi vaxtakostnaður er fljótur að hlaða upp á sig.