138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að stjórnarliðar og hæstv. ríkisstjórn ættu að leggja vel við hlustirnar þegar þeir heyra hv. þingmann lýsa því yfir að allar þessar fínu umræður um lagalega fyrirvara og annað slíkt hafi ekkert gildi vegna þess að það sé kominn lánasamningur og samkvæmt honum eigi að borga. Á honum er ríkisábyrgð og samkvæmt því eigi ríkissjóður Íslands að borga. Það sem mér finnst vera að koma hér í ljós er náttúrlega mjög alvarlegt og að allar þessar hugleiðingar um fínheit í dómstólum og öðru slíku, lagaskýringar og annað slíkt, sé í rauninni fallið um sjálft sig.

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann um takmörkun á ríkisábyrgð. Þegar Alþingi veitir ríkisábyrgð er oft talað jafnvel um að það ábyrgist milljón króna lán eða eitthvað slíkt og þá er það takmarkað. Þá er vitað að ein milljón kr. verður greidd. Þessi lagasetning sem við höfum hér er allt að því ótakmörkuð, ekki alveg ótakmörkuð en getur blásið út í ýmsar áttir. Það getur orðið verðhjöðnun í Bretlandi sem ég held reyndar að sé ein stærsta áhættan sem við stöndum frammi fyrir, mikið stærri en endurheimtuhlutfall Landsbankans, og við séum farin að borga kannski 7, 8 eða 9% raunvexti af því láni. Hvað segir hv. þingmaður um að út af öllum þessum áhættum í þessu dæmi sé þetta í rauninni óskilgreind ríkisábyrgð til framtíðar á börn og barnabörn okkar nánast um alla framtíð?