138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans svör. Ég deili skoðunum með honum í þessu máli, það er alveg ljóst.

Fyrr í dag komu fram í ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar áhyggjur af vaxtakjörum eða þeim vöxtum sem við erum að greiða af þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir þinginu. Hv. þingmaður Tryggvi Þór Herbertsson var með útreikninga um að munurinn gæti numið allt að 93 milljörðum á því að vera með breytilega vexti og fasta vexti. Nú veit ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal, einn af okkar fremstu þingmönnum í að velta fyrir sér vöxtum og slíku, hefur eytt miklum tíma í þær vangaveltur. Mig langar því að biðja hv. þingmann að útskýra aðeins fyrir okkur hver að hans mati hættan sé fyrir utan t.d. þessa 93 milljarða sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi. Hvaða önnur hætta liggur í vaxtaþætti þessa samnings og hvar liggur sú hætta? Er allt í lagi að mati þingmannsins að hafa vextina í því formi sem þarna er og munu þeir ekki reynast okkur byrði í framtíðinni? Telur þingmaðurinn eðlilegt að við séum að greiða vexti aftur í tímann af þessum samningi? Það er líklega að verða nærri ár sem við munum greiða aftur í tímann.