138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég eyddi góðum tíma af ræðu minni einmitt í umræðu um raunvexti. Það sem ég mat mestu áhættuna er að í Bretlandi verði verðhjöðnun. Þá munu þessir vextir, 5,55%, verða 7% raunvextir mjög fljótlega. Það þarf ekki mikla verðhjöðnun í Bretlandi til að þetta verði 7% raunvextir. Það eru hreint út sagt ægilegir raunvextir fyrir eina þjóð að bera.

Ég held því að menn þurfi að fara miklu, miklu betur í gegnum þennan vaxtaþátt. Eins og ég sagði áðan ættum við núna að senda Bretum og Hollendingum sanngjarnt tilboð eins og skilmálarnir í sumar voru. Þeir voru mjög sanngjarnir. Það sem ég held, frú forseti, að hafi brugðist í því var að útlista fyrir Bretum og Hollendingum að þetta væri tryggingaákvæði til að tryggja að Íslendingar gætu staðið við samninginn. Ég held að það hafi hreinlega ekki tekist að upplýsa Breta og Hollendinga um hversu sanngjarnir þessir fyrirvarar voru í rauninni. Eins og staðan er núna finnst mér að menn eigi að höfða til raunvaxta. Það er eitthvað sem Bretar og Hollendingar þekkja mjög vel eins og aðrir sem eru í fjárfestingum og ég hugsa að þeir gætu alveg fallist á að það væri sanngjarnt að við borguðum þeim allt 0,5% raunvexti eða eitthvað slíkt. Við ættum að bjóða þeim þetta og fresta málinu þangað til. Þeir geta þó náttúrlega hvenær sem er, frú forseti, sent tilkynningu og sagt að þeir fallist á gildandi lög, þ.e. lögin sem samþykkt voru í sumar.