138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið og hann kom eiginlega inn á það sem ég ætlaði að spyrja hann um, þ.e. hvort hann teldi að það hafi einhvern tíma staðið til að breyta einhverju en hann svaraði því í rauninni.

Ég endurtek að það sem ég las hér áðan er eina gagnið af öllum þeim fundum sem eru sagðir hafa átt sér stað. Hæstv. utanríkisráðherra gumaði af því við 1. umr. að hann hefði átt þrjá fundi með þjóðarleiðtogum augliti til auglitis, 12 til 14 fundi með kollegum sínum, utanríkisráðherrum ESB-landanna. Hann hitti Dominique Strauss-Kahn í Washington. Fjármálaráðherra átti fleiri, fleiri, fleiri fundi úti um allt, í lyftum í Istanbúl og úti um allt. Engin gögn eru til um neitt af þessu á prenti eftir því sem ég kemst næst vegna þess að mér hefur ekki verið svarað og það er þess vegna sem ég hef kallað eftir þessu.

Hvað finnst þingmanninum um það? Telur þingmaðurinn að það geti verið (Forseti hringir.) að ekki séu til skrifleg gögn um öll þessi fundahöld?