138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég trúi því ekki að það séu ekki til gögn af þessum fundum og í raun og veru algjörlega óviðunandi að við sem eigum að fjalla um þessi mál og þingmenn sem munu bera ábyrgð fyrir hönd íslensks almenning á þessu máli með því að samþykkja það, þ.e. ef það verður samþykkt, fáum ekki aðgang að þeim gögnum sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Þetta er í raun og veru rétt eins og upphaf málsins var, það stóð aldrei til að sýna okkur samninginn upphaflega þegar við hófum þessa vinnu á sumarmánuðum, það var þessi leyndarhjúpur og öll þessi leynd. Og núna þegar við óskum eftir því, köllum eftir því, þingmenn á Alþingi Íslendinga, að fá þessar upplýsingar, erum við ekki einu sinni virt svars. (REÁ: Og þá er verið að saka fólk um landráð.) Og þá er verið að saka fólk um landráð. Það er orð sem ég hef aldrei tekið mér í munn hér, en það sem við erum að reyna að gera er að standa vörð um hagsmuni almennings og við þurfum (Forseti hringir.) að fá allar þær upplýsingar sem í málinu liggja.