138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég hef margoft sagt hér var málið tekið út í ágreiningi í efnahags- og skattanefnd, vegna þess að við í minni hlutanum töldum að málið væri ekki fullrætt. Og það sem hv. þingmaður nefndi, hvort við ættum að miða við fasta vexti eða breytilega vexti, fékk því miður ekki þá umfjöllun sem það hefði þurft. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur farið ágætlega yfir það mál í þessari umræðu, en það væri eðlilegra að við gætum á vettvangi nefndarinnar kallað til gesti til að fara yfir þetta álitamál, því að eins og fram hefur komið hjá hv. þingmanni gæti það munað allt að 90 milljörðum kr. ef við mundum notast við breytilega vexti frekar en fasta vexti. Það eru nú engar smáræðis upphæðir fyrir ríkissjóð og íslenskan almenning. Ef það liggur svo á að klára þetta mál, án þess að skoða hvort mögulegt væri að spara 90 milljarða kr. með þessu, þá erum við auðug þjóð ef við höfum efni á því að skoða ekki þessi mál til hlítar. Við erum að tala hér á Alþingi um skuldbindingar og greiðslur úr ríkissjóði upp á a.m.k. 300.000 millj. kr. sem eru bara vextirnir. Á slík umræða bara að taka enga stund? (PHB: Milljón á mann.) Eigum við ekki að velta því fyrir okkur hvernig við getum lækkað þessa skuldbindingu þjóðarinnar? Hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á að þetta sé milljón á hvern einasta Íslending. (PHB: Litlu börnin líka.) Litlu börnin líka. Þetta eru því engir smáræðis fjármunir sem við ræðum hér. Við eigum (Forseti hringir.) okkur ber skylda til að fara vel yfir þetta mál.