138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:06]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé óumflýjanlegt að þetta mál verði tekið til gaumgæfilegrar skoðunar milli 2. og 3. umr. og ég held að það sé ekki síður mikilvægt að hv. efnahags- og skattanefnd komi að því verkefni. Ég bendi á vegna þeirrar tölu sem hv. þingmaður nefndi og það er stundum gott að setja stórar tölur í samhengi, að 90 milljarðar kr. duga til að reka Háskóla Íslands í tæp níu ár. Hér er því um að ræða verulega peninga. Það er ábyrgðarhluti fyrir okkur Íslendinga að binda okkur til langrar framtíðar án þess að hafa a.m.k. gert okkur grein fyrir því hvað við erum að gera. Ef menn eru hins vegar á þeirri skoðun að rétt sé að gera þetta með þessum hætti, taka menn væntanlega slíka ákvörðun. En það er grundvallaratriði að við gerum okkur grein fyrir hverjar afleiðingarnar eru og hvaða fórn við gætum þurft að færa vegna þeirra. Það sem ég held að skipti mestu máli við umræðuna núna er að við drögum fram þau sjónarmið hvaða afleiðingar þetta muni hafa og hvort við höfum tækifæri til þess að verja okkur frekar en við höfum nú gert og hvort við eigum að stíga skref í þá átt. Í því efni er nauðsynlegt að þær nefndir þingsins sem um þetta mál véla (Forseti hringir.) komi saman og fjalli um málið.