138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég má til með að leiðrétta frú forseta. Fyrsti varaforseti sagði ekki að búið væri að koma til þeirra boðum, hún sagði að hún hefði þær upplýsingar að þeir væru komnir í hús. Ég held að það sé rangt, alla vega miðað við viðverukerfið núna, þannig að þeim ágæta forseta hafa af einhverjum ástæðum verið veittar rangar upplýsingar.

En það er náttúrlega með ólíkindum að bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar, sem bera ábyrgð á afgreiðslu þessa máls út úr nefnd, sitji á fundi annars staðar í bænum þegar verið er að ræða þetta hér. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson ætlaði að koma með margar fyrirspurnir til þeirra sem hann gat ekki gert. Ég veit að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson átti líka sæti í þeirri nefnd sem nú fundar í sjávarútvegsráðuneytinu en hann forgangsraðaði í þágu þingsins.

Ég hafði líka spurnir af því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefði (Forseti hringir.) gert athugasemdir við þennan ágæta miðstjórnarfund sem var í hádeginu. Ég held að það ætti að koma þessum athugasemdum til hans beint sem og til hæstv. heilbrigðisráðherra sem er að halda Þingvallanefndarfund að allri stjórnarandstöðunni fjarstaddri.