138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir mjög kröftuga og góða ræðu, mjög gaman að hlusta á hann fara í gegnum þetta annars hörmulega mál.

Það sem mig langar aðeins að ræða og spyrja hv. þingmann um varðar jafnræðisreglu Evrópusambandsins. Það hefur komið margoft fram að formaður fjárlaganefndar eða meiri hlutinn hafnaði að ræða efnislega um ýmsar ábendingar sem hefðu komið frá gestum og líka að ræða þau fjögur minnihlutaálit sem komu frá efnahags- og skattanefnd. Ég man hins vegar eftir því að hafa setið sem varamaður í fjárlaganefnd í sumar og hlustað á danskan lögfræðing sem var titlaður sem ESB-sérfræðingur, sérfræðingur í löggjöf Evrópusambandsins. Hann talaði mjög mikið um einmitt þessa jafnræðisreglu og færði rök fyrir greiðsluskyldu Íslendinga.

Hvað varðar hins vegar vextina þá er það eitthvað sem virðist vera alveg nýtt. Ég hef ekki séð punkta um þetta í einu eða neinu af þeim fjölmörgu nefndarálitum sem hafa komið fram í þinginu, ég hafði ekki heyrt áður um þetta rætt hvorki innan efnahags- og skattanefndar né fjárlaganefndar. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá hv. þingmanni sem situr sem fulltrúi í fjárlaganefnd hvort þetta sé misskilningur hjá mér og það hafi verið farið í gegnum þær ábendingar sem komu frá Daniel Gros, fulltrúa í bankaráði Seðlabankans og sérfræðingi á sviði Evrópusambandsins og fjármálamarkaðarins, hvort það hafi verið rætt eða einhverjir sérfræðingar komið á fund nefndarinnar. Og hvort það væri ekki tilefni í ljósi þeirrar álitsgerðar sem Daniel Gros hefur komið fram með ásamt öðrum sérfræðingi þess efnis að hugsanlega væri hægt að spara 185 milljarða (Forseti hringir.) ef við mundum beita þessari jafnræðisreglu ESB-réttarins eða EES-réttarins.