138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt það sem ég hef nefnt í fyrri andsvörum mínum og þar á meðal í andsvörum við hv. þm. Pétur Blöndal, að það virðist ekki hafa farið fram neitt áhættumat eða áhættugreining á þessum lánasamningi. Það kom fram hérna í frammíkalli hjá hæstv. fjármálaráðherra að búið væri að skoða vextina og margoft búið að fara í gegnum ákvörðunina um að vera með fasta vexti í staðinn fyrir breytilega. En einu gögnin sem ég hef séð sem hafa farið fyrir fjárlaganefnd varðandi vextina og þá ákvörðun um að vera með fasta vexti en ekki breytilega vexti, er greinargerð frá Seðlabankanum. Sú greinargerð var gerð í sumar. Eins og við höfum margupplifað núna virðast hlutirnir breytast mjög hratt frá viku til viku og mánuði til mánaðar.

Telur hv. þingmaður að það þurfi raunar enn á ný, og hefði átt að gera núna í þessari umferð, (Forseti hringir.) að fara fram nýtt mat á því hvort það hefði verið rétt að vera með breytilega vexti í stað fasta út frá þeim forsendum sem Seðlabankinn gaf (Forseti hringir.) sér í sumar.