138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég svara því að ég hef reyndar engan hitt og heyrt fyrir utan þingsalinn, halda því fram að fyrirvararnir séu betri en þeir voru. En eins og ég kom inn á í ræðu minni er mjög sérkennilegt að hæstv. ráðherrar, sumir, skuli halda því fram að fyrirvararnir hafi skánað eftir að þeir fóru út. Ég minni bara á bréf, sem töluvert hefur verið talað um, á milli forsætisráðherra landanna þar sem einmitt Gordon Brown ítrekar að nú sé búið að skrifa þetta allt inn í lagalegan skilning og þar fram eftir götunum. Það er mjög sérkennilegt. Það er líka mikilvægt að átta sig á því, og ég geri mér ekki fulla grein fyrir því þó að ég sitji í fjárlaganefnd, hvað í raun og veru þetta þýðir. Það sem vantar líka er að fá sérfræðing í enskum lögum, af því að við hittum færustu lögfræðinga Íslands sem við berum öll mikla virðingu fyrir og þeir geta ekki fullyrt hvað þetta þýðir nákvæmlega vegna þess að til að svo sé þurfi menn að vera sérfræðingar í enskum lögum, þannig að menn geti spurt hvað þetta í raun og veru þýðir eftir samningunum, af því að eftir enskum lögum lesa menn textann og dæma út frá honum.

Síðan spyr hv. þingmaður líka um það sem er að gerast að menn þurfi að bera undir aðra þjóð lög sem þeir setja. Auðvitað á ekki að gera það, lög frá Alþingi Íslendinga eru náttúrlega lög frá Alþingi Íslendinga og mér finnst að þau eigi ekki að vera á brunaútsölu gagnvart neinum. Alþingi er búið að tala í málinu, búið að afgreiða málið og það á að vera þannig, ekki að menn geti farið með það, þynnt það út og gert allar hundakúnstir.

Svo vil ég líka benda á það, frú forseti, að einmitt í þeim fyrirvörum sem eru núna eru settar EFTA-krækjur á þetta, ég er mjög hugsi yfir því og hef reyndar farið í andsvör við marga þingmenn um það. Hvað þýðir það ef Alþingi Íslendinga samþykkir að Hæstiréttur Íslands þurfi að fá álitsgerð frá EFTA-dómstólnum til að þeir megi dæma, og það þarf að vera samræmi, er þá Alþingi Íslendinga í raun og veru að segja að þetta sé vantraust á íslenska dómstóla? Ég er mjög hugsi yfir því.