138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður spyr um er aftenging efnahagslegu fyrirvaranna í þessu núna, sem gerist með þeim hætti að nú borgum við reyndar eftir sömu prósentu en við borgum alltaf vextina, alveg sama hvernig árar. Þá getum við lent í því að þurfa að greiða marga tugi milljarða í vexti, sem við vitum ekki upphæðina á, og þó að það sé enginn hagvöxtur munum við alltaf þurfa að greiða þá.

Það var náttúrlega gríðarlega sterkur fyrirvari að gera þetta svona og eins líka, eins og hv. þingmaður kom inn á, í sambandi við sólarlagsákvæðið þar sem endapunkturinn á því var 2024, þ.e. eftir því sem við greiddum niður lánið mundum við þó hætta því 2024, hvort heldur eitthvað stæði eftir af því eða ekki. Það væri endapunkturinn og það væri þá þetta skeið sem við mundum fara að njóta alls hagvaxtarins sjálf. Þetta var einmitt sett inn með tilvísun í svokölluð Brussel-viðmið.

En það sem hv. þingmaður bendir á og Sigurður Líndal hefur m.a. bent á, er að í raun og veru er verið að veita ríkisábyrgð sem enginn veit upphæðina á eða hver tímamörkin eru. Og sá ágæti fræðimaður, Sigurður Líndal, hefur velt því upp hvort okkur sé það heimilt og hvort við séum hugsanlega að brjóta stjórnarskrána. Þetta mál fékk enga efnislega umræðu í fjárlaganefnd en ég ætla samt að upplýsa þingmanninn um það að ég sá á tölvupóstinum mínum í gær að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, er einmitt búinn að senda beiðni til manna um að skoða þetta sérstaklega. Ég tel þá alveg víst að það verði skoðað á milli 2. og 3. umr. Slík skoðun fór ekki fram fyrir 2. umr., en hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, hefur brugðist við þessum ábendingum hér og skrifum um þetta mál og hefur óskað eftir því að þetta verði skoðað sérstaklega milli 2. og 3. umr. í fjárlaganefnd.