138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla bara rétt að bregðast við orðum sem hér hafa fallið. Ég veit ekki hvort þau eru beinlínis um fundarstjórn forseta en ég vil fullvissa hv. þingmenn sem hafa tekið til máls undir þessum lið um að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa verið hér í húsi og fylgst með umræðunni og hlustað á ræður. Sjálfur hef ég verið hér í húsinu í allan dag og fylgst með þessari umræðu.

Ég verð þó að segja eins og er að margt í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar er gamalkunnugt. Margt af því hefur maður heyrt efnislega í fleiri ræðum sem hafa verið fluttar í umræðu um þetta mál þannig að ég get fullvissað hv. þingmenn um það að okkur stjórnarliðum (Forseti hringir.) er ljóst hvaða sjónarmið hafa verið sett fram hér en ég ítreka það að bæði forustumenn ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og þingflokka stjórnarflokkanna hafa verið að fylgjast með umræðunni.