138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að það var ánægjulegt að sjá hv. þm. Árna Þór Sigurðsson heiðra okkur með nærveru sinni . Hann kom hingað upp til þess að fullvissa okkur um það að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn væru hér í húsi og væru svo sannarlega að hlusta á okkur og ég get auðvitað ekki annað en trúað því sem þingmaðurinn segir.

En ég hef ítrekað bent á það í þessari umræðu, bæði í ræðu minni og líka í athugasemdum við fundarstjórn forseta, að það er einfaldlega ekki nóg. Ég var í minni 40 mínútna ræðu í gær með margar spurningar til þriggja ráðherra sem sáu sér ekki fært að sitja hér en ég var fullvissuð um það trekk í trekk að þeir væru hér í húsi. Því er kannski spurning um að beina því til þingmannsins hvort hann hafi þá tök á því að fullvissa mig um það að spurningum mínum verði svarað af þessum ágætu ráðherrum. (Forseti hringir.) Eða telur hann nóg fyrir lýðræðislega umræðu að fólk sitji og hlusti?