138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í ljósi ákveðinna frammíkalla — við virðumst ekki fá ráðherrana upp í ræðustól, þeir kalla bara fram í nú í dag — langar mig til þess að benda þeim á frumvarp til fjárlaga sem er fyrsta þingskjalið sem ráðherrann lagði fram hér á þingi. Þar er sérstakur kafli um kynjaða hagstjórn. Ég óska eftir því að þessi stjórn á þingstörfum taki jafnvel upp kynjaða fundarstjórn. Í ljósi þess að svo virðist vera að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki kynnt sér hvernig staða kynjanna er hér á Íslandi þá liggja fyrir fjöldamargar rannsóknir þess efnis að konur bera fyrst og fremst ábyrgð á börnum og heimilum. Nú er farið af stað sérstakt átak á vegum sveitarstjórnarráðuneytisins til þess einmitt að reyna að bæta starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna vegna þess að þetta er ein af ástæðum þess að erfitt hefur verið að fá konur til að starfa í stjórnmálum (Forseti hringir.) og hefur það gilt bæði um sveitarstjórnarstigið og landstjórnina.