138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hún var athyglisverð greining hv. þingmanns á afstöðu stjórnarliða. Ég er reyndar ekki alveg sammála henni. Ég hygg nefnilega að nánast enginn hv. þingmaður Vinstri grænna vilji í hjarta sínu ganga í Evrópusambandið. Þó að þeir hafi fallist á að sækja um og kíkja á hvað er í pokanum þá sé enginn þeirra, eða a.m.k. mjög fáir, í þeirri stöðu að vilja ganga inn. Það er ekki hvatinn á bak við það hjá þeim að samþykkja þetta frumvarp. Þá er það spurning mín til hv. þingmanns: Hefur hann velt fyrir sér hver er hinn raunverulegi hvati Vinstri grænna til að samþykkja frumvarpið?

Ég geri ráð fyrir að flestir þingmenn Samfylkingarinnar, hvatinn hjá þeim sé að ganga í Evrópusambandið, þeir sjá það sem lausn allra mála. Ég er reyndar hjartanlega ósammála en þeir vilja miklu til kosta og vilja samþykkja það af því að þeir vita að Bretar og Hollendingar þurfa að samþykkja aðild Íslands að Evrópusambandinu. Sú greining er því rétt, þeir eru að borga Icesave fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Vinstri grænir — það er ekki rétt greining hjá hv. þingmanni, tel ég. Ég tel að þar sé draumurinn um fyrstu raunverulegu vinstri stjórnina miklu sterkari. Þeir vilja ekki eyðileggja fyrstu vinstri stjórnina. Og sá sem hótar þeim að eyðileggja fyrstu vinstri stjórnina — ef við tökum taflborðið, sá sem hótar peðunum er kóngurinn sjálfur; hann hótar að fella sjálfan sig ef einhver dansar út úr röðinni.

Ég held að það sé þessi hótun hæstv. forsætisráðherra að rjúfa ríkisstjórnina ef ekki verði einhliða marserað hérna í takt, það sé ástæðan (Forseti hringir.) fyrir því að Vinstri grænir samþykki þetta.