138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að enginn þurfi að verða undrandi á því, í allri umræðunni í dag um skuldir, afskriftir og guð má vita hvað þetta heitir allt saman, þótt fólk ruglist á tölum. Ég held að það sé í raun þannig að fólk er farið að klippa af núll eða bæta við núlli og það er nú gert í þingsalnum sem og annars staðar.

Nei, mér finnst alveg út í hött að greiða 35 milljarða aukalega í vexti frá 1. janúar 2009, 35 milljarða plús 3,5 milljarða í umsýslukostnað, og við leggjum ekki einu sinni á, sem við getum gert samkvæmt lögum, svokallað ríkisábyrgðagjald. Ekki dettur okkur í hug að leggja það á. Þó svo að við séum að samþykkja að greiða einhvern umsýslukostnað, setjum við ekki inn í þennan samning þau gjöld sem við getum sett. Hvað haldið þið að við getum gert í heilbrigðiskerfinu fyrir 35 milljarða sem ríkisstjórnin ætlar að greiða í aukavexti? Hvað haldið þið að við getum gert í málefnum fjölskyldna og fatlaðra fyrir 35 milljarða sem ríkisstjórnin ætlar að greiða í aukalega vexti, plús 3,5 milljarða í umsýslukostnað?

Ég held að ákefðin í að gera þetta samkomulag, ákefðin í að ganga inn í Evrópusambandið, ákefðin í að fórna öllu til þess, hafi fyrir löngu borið menn ofurliði í þessu og öll skynsemi og rökhyggja sé farin. Það er bara samþykkt það sem þarf að samþykkja til að geta haldið áfram og helst bara ýtt þessu leiðindamáli út af borðinu. Þetta eru að sjálfsögðu vinnubrögð sem maður setur spurningu við en virðast vera einkenni á þessu máli. Auðvitað eru allir orðnir þreyttir á því að ræða þetta mál, en við getum ekki leyft okkur að gefast upp við að ræða og fjalla um eitt stærsta hagsmunamál Íslands í dag og framtíðarinnar, hugsanlega greiðslur og skuldir upp á hundruð eða þúsundir milljarða.