138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég gerði athugasemdir við fundarstjórn forseta á undan ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og fékk því miður engin svör hjá þáverandi forseta. Ég var að vona að þar sem nú er kominn nýr forseti í forsetastól að forseti gæti kannski svarað því hvort það sé eitthvað að skýrast hve lengi við ætlum að halda áfram í dag. Enn eru 17 á mælendaskrá, auk þess sem eru á dagskrá mörg önnur stór mál sem við höfum ítrekað boðið að taka fram fyrir og fresta þessu. Það er föstudagur í dag — ég veit er forseti mikill jafnréttissinni og hefur verið mjög umhugað um kynjasjónarmiðin í sínu pólitíska starfi, og það skiptir náttúrlega miklu máli að þingmenn geti skipulagt sig og samhæft sig aðeins við fjölskyldu sína og raunar kannski upplýst um það hvernig ætlunin er að hátta þingstörfum, (Forseti hringir.) þó ekki væri nema í dag, og gott væri að vita hvernig staðan verður kannski á morgun eða á mánudaginn.

(Forseti (ÞBack): Forseti getur upplýst að eftir fund með forseta og þingflokksformönnum verður það upplýst hversu lengi áætlað er að halda áfram fundi í dag.)