138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í fyrsta lagi liggur það fyrir að ESB fer ekki til þjóðarinnar. Það verður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, það heitir með öðrum orðum skoðanakönnun. Við lögðum fram tillögu, sjálfstæðismenn, um að það yrði bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta stóra mál en tillagan var felld.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leiðbeina forseta lýðveldisins um hvað hann á að gera. Ég vek athygli á því að allir þeir sem lesa fyrirvarana sjá að ástæðan fyrir því að forsetinn skrifaði undir var sú að fyrirvararnir voru til staðar. Nú er búið að taka fyrirvarana út og það þýðir að forsetinn mun væntanlega ekki skrifa undir. Ég býst við því. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þeir sem nú eru í stjórn fögnuðu því allir sem einn að forseti lýðveldisins skyldi ekki skrifa undir fjölmiðlalögin á sínum tíma, m.a. að djúp gjá væri á milli þjóðar og þings og ýmislegt annað. Ég á því frekar von á því að stjórnarliðar muni taka því fagnandi ef forseti skrifar ekki undir lögin. Er einhver hér sem ætlar núverandi stjórnarliðum að vera ekki sjálfum sér samkvæmir? Hafa menn séð einhver slík mál?

Virðulegi forseti. Ég á von á því að stjórnarliðar muni hvetja forsetann mjög til að skrifa ekki undir þetta lagafrumvarp ef það fer fram eins og það lítur út í dag.