138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að lýsa því yfir sem minni skoðun að ég hafna því að hér sé að fara af stað málþóf þegar fulltrúar flokka í fjárlaganefnd hafa ekki einu sinni lokið við að fara með sínar fyrstu ræður. Ég tek líka fram vegna frammíkalla áðan um það hvernig dagskrá þingsins er háttað og það hversu langan tíma tekur að ræða Icesave-málið að sú dagskrártillaga sem stjórnarandstaðan lagði fram í gær var ekkert sjónarspil eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kallaði fram í úr hliðarsal (Gripið fram í.) undir ræðunni áðan. Það liggur alveg fyrir og ég held að menn ættu bara að hefja sig þá upp úr skotgröfunum með það að það er alveg jafnljóst í huga stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðsins hvað eru margir dagar til jóla. Það er margoft búið að taka fram í umræðunum, bæði í þessum sal og eins á vettvangi formanna þingflokka, að það sé fullur vilji til þess af hálfu stjórnarandstöðunnar að rýma til í dagskrá svo hægt sé að taka til við þau mál sem þurfa nauðsynlega að koma til nefnda.

Þar sem ég sit í hv. fjárlaganefnd og er fullkunnugt um það hvaða verkefni þar eru og hvaða tíma þau taka vil ég segja það sem mína eindregnu skoðun að það væri skynsamlegt að gera hlé á þessari umræðu og hleypa t.d. mikilvægu frumvarpi um fjáraukalög inn í þingsalinn, að ég tali nú ekki um skattbreytingarnar. Það er afar skammur tími til þess að afgreiða skattbreytingarnar, hv. efnahags- og skattanefnd þarf að fá góðan tíma til að fara í gegnum þær tillögur sem þar eru á ferðinni og gefa álit sitt hv. fjárlaganefnd sem þarf núna fyrstu vikurnar í desember að fara í 2. umr. um fjárlög.

Ég held að það sé ágætt að það komi fram úr þessum stól að það væri mjög gott ef alþingismenn gætu orðið sammála um að það sé ástæða til að gera hlé á þessari umræðu á meðan verið er að koma þeim mikilvægu málum til nefnda. Í því efni ætla ég ekkert að fara að úttala mig um það hvernig sú vinna fer fram í nefndunum, auðvitað vitum við að skattbreytingarnar eru mjög umfangsmikil og umdeild mál og það sýnist sitt hverjum, en meginatriðið er að þessi frumvörp þurfa að komast í þinglega meðferð ef okkur á að takast það sem stjórnarskráin býður, að afgreiða hér fjárlög fyrir 31. desember. Undan því verður ekki vikist og það vitum við öll sem hér erum. Þetta vil ég segja í upphafinu vegna þess að mér leiðist alveg óskaplega þegar verið er að saka mann um málþóf þegar maður er ekki einu sinni farinn að halda sína fyrstu ræðu um mál sem maður hefur lagt allt sitt í um margra mánaða skeið á vettvangi fjárlaganefndar. Ég tek slíkt ekki til mín.

Ég vil síðan nýta ræðutíma minn til að fara yfir þau atriði í þessu Icesave-máli og þau álitaefni sem mér hefur fundist fara aflaga frá því að við samþykktum lög hér í sumar sem á margan hátt voru óvenjuleg. Þar hafði mjög óvenjulegt samstarf átt sér stað á vettvangi þingsins sem ber að fagna.

Ég vil einnig taka til nokkur atriði sem mér finnst þess eðlis að þau krefjist nánari skoðunar. Hér hafa margir fullyrt að allt sé komið fram sem þarf að tala um í þessu máli. Ég er því ekki sammála og mun tína til nokkur atriði sem í mínum huga þarf að ræða í hv. fjárlaganefnd. Ég geri ráð fyrir því að þetta mál gangi til hv. fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og vegna þeirra álitaefna sem upp hafa komið undanfarna daga og ég mun fara nánar út í held ég að það sé nauðsynlegt að efnahags- og skattanefnd skoði ákveðna þætti.

Ég sat því miður ekki í hv. fjárlaganefnd þegar þetta mál var afgreitt út af hálfu meiri hluta nefndarinnar í töluverðum ágreiningi við stjórnarandstöðu. Mér þykir það ekki bragur að hafa kallað eftir áliti efnahags- og skattanefndar og gefa sér ekki tækifæri til að ræða það einu orði í hv. fjárlaganefnd. Ég held að oft sé betra að gefa sér aðeins rýmri tíma og koma þá í veg fyrir pústra í þingsalnum út af slíkum hlutum.

Það er líka athyglisvert að hv. efnahags- og skattanefnd er fjórklofin í áliti sínu til fjárlaganefndar. Þar ber helst að geta þess að ríkisstjórnarflokkarnir skiluðu hvor sínu álitinu og það endurspeglar kannski allt um þetta mál í sumar, að það hefur verið mikill ágreiningur innan flokka um hvernig með þetta mál skuli fara. Sérstaklega hafa þingmenn Vinstri grænna verið ósammála um það hvernig lenda skuli málinu og mér finnst það líka sérstaklega bagalegt, eftir alla næturfundina og þá umræðu sem átti sér stað í hv. fjárlaganefnd þar sem hv. þingmenn Vinstri grænna voru mjög virkir þátttakendur í að koma hlutunum í þann farveg sem málið endaði, að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skuli ekki hafa tjáð sig í þessari umræðu. Sérstaklega vekur athygli hversu fjarverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur verið í þessu og enn liggur ekki fyrir hvaða skoðun hann hefur á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Það sætir töluverðri undrun þegar horft er til þess hversu mikið hann lagði á sig í sumar til að ná þeim árangri sem náðist í lagasetningunni þá. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Ögmundur Jónasson muni hraða sér til þings fljótlega og gera okkur grein fyrir afstöðu sinni, ég held að það sé mjög mikilvægt, ekki einungis fyrir þingmenn heldur Íslendinga alla sem fylgdust náið með umræðunni í sumar. Mörgum þótti hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, sýna mikinn kjark í því hvernig hann hélt á þessu máli. Ég held að mörgum þætti forvitnilegt að vita afstöðu hans núna og hvaða skoðanir hann hefur á þeim álitaefnum sem uppi eru og jafnframt hvaða skoðanir hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur á þeim mikla asa sem var á því að afgreiða málið, að því er virtist að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeirri pressu virðist hafa verið aflétt eða öllu heldur hefur komið fram að sú pressa var ekki fyrir hendi af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og menn höfðu haldið mjög fram. Ég held að það væri mjög athyglisvert og skora á hv. þingmann að eiga við okkur orðastað. Ég mun ekki ganga lengra í kröfu minni um þetta en ég skora nú á hann að gera það, ég held að það gæti verið mjög fróðlegt að heyra hvað hann hefur að segja.

Ég held líka að núna, fyrst við erum komin í þá ömurlegu stöðu að þurfa að ræða þetta mál með allt öðrum formerkjum en við gerðum í sumar, sé nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á því hvað við gætum hugsanlega lært af því hvernig allt þetta mál hefur farið frá því að Icesave-orðið birtist í fyrrahaust, skömmu fyrir hrun. Alveg frá því að þetta mál kom upp og allir þeir erfiðleikar sem urðu síðasta haust í tengslum við þetta mál hefur Alþingi Íslendinga reynt að verja hagsmuni Íslendinga eins og kostur er. Fyrst var það gert með því að sett voru ákveðin skilyrði eða öllu heldur voru framkvæmdarvaldinu veittar ákveðnar leiðbeiningar með þingsályktunartillögu sem samþykkt var 5. desember sl.

Frú forseti. Mér þætti vænt um ef það væri hægt að loka hliðarherbergjum ef það er vilji fulltrúa stjórnarliðsins í fjárlaganefnd að hlusta ekki á það sem fram fer hér. (GuðbH: Ég er að hlusta.) (REÁ: Nei.) Þá væri betra ef þeir mundu bara loka dyrunum þannig að maður gæti haldið ræðuna óáreittur, frú forseti. — Athyglisvert að hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, (Gripið fram í: Sem var að detta í hús.) kaus að loka dyrunum í stað þess að stíga inn í salinn og hlusta. Þetta er nú skráð í þingtíðindi, mjög athyglisvert. (Gripið fram í: Nýkominn.) Hv. formaður fjárlaganefndar hefur verið fjarri í allan dag, var á fundi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra boðaði. Nú er hann kominn í húsið og hefur lokað dyrunum á hv. þingmann fjárlaganefndar sem er að halda ræðu.

Mig langar til að halda áfram með þetta sem gerðist hér í fyrrahaust og þær leiðbeiningar sem Alþingi Íslendinga setti fram með þingsályktunartillögu 5. desember 2008. Þá hafði þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir — sem við fengum ekki leyfi til þess að fá fyrir hv. fjárlaganefnd til að gera grein fyrir aðdragandanum að svokölluðum Brussel-viðmiðum — ásamt embættismönnum í utanríkisráðuneytinu og fleiri aðilum og forsvarsmönnum ríkisstjórnar, þá undir forustu Geirs H. Haarde, komið því til leiðar, ekki síst að tilstuðlan Frakka, að til urðu svokölluð Brussel-viðmið sem Alþingi Íslendinga hnykkti síðan á í þingsályktunartillögu og jafnframt á þeirri skoðun sinni að það þyrfti að leita pólitískra lausna í þessu máli þótt við hefðum aldrei, og höfum ekki fram að þessu, fallið frá neinum lagalegum rétti. Þær samningaviðræður fóru í hönd og lengst af undir forustu þáverandi minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem tók við 1. febrúar 2009. Engu að síður komu þeir samningar heim 5. júní, þessir svokölluðu Icesave-samningar, sem við höfum síðan tekist á um og eru í miklu ósamræmi við svokölluð Brussel-viðmið sem Alþingi Íslendinga hafði lagt sérstaklega áherslu á að yrðu lögð til grundvallar þegar að þessu kæmi. Því miður var það ekki og það er ástæðan fyrir því að Alþingi Íslendinga ákvað í sumar að gera aðra tilraun til að tryggja betur hagsmuni Íslendinga. Þá var það gert með lagafrumvarpi sem síðan varð að samþykktum lögum frá þinginu um að setja ríkisábyrgðinni ákveðnar skorður, að ekki væri gefin opin ríkisábyrgð inn í framtíðina á þá mjög svo umdeilda kröfu sem Icesave-krafan er.

Með þeim samningum sem voru undirritaðir nú í haust var í annað sinn gengið á svig við vilja Alþingis með því að tilraun Alþingis í lagasetningunni um að takmarka ríkisábyrgðina, reyna að verja hagsmuni þjóðarinnar til langframa, hefur verið tekin úr sambandi og núna liggur fyrir frumvarp þar sem á að veita ótakmarkaða ríkisábyrgð á óskilgreindri kröfu langt inn í framtíðina.

Þessi atburðarás og þessar tilraunir þingsins sem hafa mistekist fram til þessa vekja margar spurningar um það hvernig Alþingi lítur á stöðu sína gagnvart stjórnarskrá. Það er óumdeilt að Alþingi Íslendinga er æðsta stofnun lýðveldisins, Alþingi Íslendinga er þar fyrir utan virðulegasta stofnun lýðveldisins. Það hlýtur að vekja öllum alþingismönnum í öllum flokkum nokkrar spurningar þegar svona háttar til, þegar tilraunum Alþingis til að verja hagsmuni þjóðarinnar og líka til þess að fylgja stjórnarskrárskyldum sínum með því að takmarka ríkisábyrgð er ekki sinnt. Ég held að það sé æskilegt fyrir alþingismenn og Alþingi að velta fyrir sér hvernig við þessu eigi að bregðast. Ég vil gera að mínum orð Ragnhildar Helgadóttur, prófessors í stjórnlögum, sem hún lét falla á fundi fjárlaganefndar nýverið, að þetta hlyti og yrði að vera litið á sem undantekningu, að Alþingi hlyti — og þá nefndi hún reyndar sérstaklega að ekki hefði verið farið eftir þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var 5. desember — að þurfa að skoða mjög vel hvernig á þessu stæði, þetta mætti ekki gerast og þetta gæti aldrei orðið neins konar fordæmi. Þetta finnst mér skipta gríðarlega miklu máli. Samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds í þessu máli eru óvenjuleg. Menn hafa sagt: Það hefur oft gerst að síðan hefur lögum verið breytt o.s.frv. en í þessu máli liggja undir samningar milli þriggja ríkja. Þarna undir liggja gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir og þegar svo er er ekkert óeðlilegt þó að Alþingi velti fyrir sér hvernig eigi að fara með ákvæði stjórnarskrárinnar um það hvernig ríkisábyrgð er veitt. Þetta er óskaplega eðlileg spurning og ég held að það sé nauðsynlegt fyrir Alþingi Íslendinga að skoða þetta rækilega núna í kjölfar þessa máls.

Prófessor emeritus Sigurður Líndal hefur nokkuð fjallað um þetta undanfarið á Íslandi. Hann ritaði nýverið grein þar sem hann tók sérstaklega á þessu máli og taldi æskilegt fyrir Alþingi að samþykkja ekki þetta frumvarp nema búið væri að taka til rækilegrar skoðunar hvort það samrýmdist stjórnarskrá að veita ríkisábyrgð sem væri eins óskilgreind og þessi ríkisábyrgð er. Ég held líka að það sé fullkomlega eðlilegt að þetta sé tekið til rækilegrar skoðunar í hv. fjárlaganefnd. Þetta er einn af þeim lykilþáttum sem ég tel að skoða verði í nefndinni. Hvernig eigum við að tryggja að við vitum upphæðina sem við erum að veita ríkisábyrgð fyrir og hvernig á að takmarka hana? Hversu lengi á hún að standa? Þetta verða menn að ræða fyrir utan allar þær deilur og furðulegheit um að við tökumst yfirleitt á hendur kröfu sem okkur ber ekki að borga. Ég ætla ekki að fara út í það. Aðalatriðið er að stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir svona atburðarás. Það er nauðsynlegt að hv. fjárlaganefnd skoði alveg sérstaklega hvernig með þetta skuli fara. Ég mun fara fram á það milli 2. og 3. umr. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, verði mér sammála um þetta. Ég veit að rituð hafa verið bréf til lögfræðinga um þetta mál. Það þarf að ræða við menn um þetta. Við þurfum að gera það sjálf í nefndinni og ég vil gera ágreining um þetta. Nefndin verður auðvitað sjálf að hafa svigrúm til að ræða þessi álitaefni og komast að niðurstöðu.

Það er líka annað atriði í þessu máli sem vekur miklar spurningar um það hvernig litið er á æðstu stofnanir Íslands og það er hvernig löggjafarvaldið virðist ætla sér að segja dómsvaldinu fyrir verkum. Samkvæmt íslenskri stjórnarskrá er dómsvaldið algjörlega sjálfstætt. Hvernig stendur á því að Alþingi Íslendinga hugsar sér núna að fara að segja dómsvaldinu fyrir verkum um það hvernig eigi að dæma í málinu, að nú skuli talað við dómstóla í útlöndum og þeir spurðir hvað þeim finnst og síðan skulum við bara vera sammála þeim og kveða upp dóma í samræmi við það? Þetta eru alveg ný tíðindi. Okkur hefur aldrei dottið neitt svona lagað í hug. Mér finnst töluvert hugmyndaflug að láta sér detta í hug að fara að spyrja erlenda dómstóla hvað þeim finnist um einhver mál og dæma í samræmi við það. Þetta finnst mér alls ekki koma til greina. Höldum við bara að við getum sagt einhverjum dómstólum úti í heimi að hafa skoðanir á þeim málum sem við erum að véla um, jafnvel þó að það sé EFTA-dómstóllinn og þetta séu tilskipanir frá Evrópusambandinu? Þarna finnst mér menn hafa verið komnir út á mjög hálan ís. Þetta þarf einnig að skoða mjög rækilega og mér finnst þetta alveg óskiljanlegt. Ég er sannfærð um að engin þjóð á byggðu bóli mundi samþykkja svona lagað. Ég er algjörlega sannfærð um að það mundu Bretar og Hollendingar aldrei gera, aldrei nokkurn tíma. Eins og Silja Bára Ómarsdóttir sagði svo skemmtilega í sjónvarpsviðtali fyrir örfáum dögum sýnir þetta bara að þessar þjóðir eru vanar að hafa sitt fram og það sé bara gert eins og þær vilja. Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur gerði að umtalsefni bréf sem okkur barst frá herra Gordon Brown þar sem hann svaraði okkar hæstv. forsætisráðherra sem hafði farið fram á að fundur yrði haldinn um framgang Icesave-málsins. Herra Gordon Brown tók sér töluverðan tíma til að svara þessu bréfi og mér fannst hann svara því síðan mjög frekjulega. Ég býst við að flestir hljóti að vera sammála um að þetta var mjög frekjulegt svar. Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur sem er sérfræðingur í alþjóðasamskiptum segir, með leyfi forseta, í sjónvarpinu 25. nóvember sl.:

„Þetta er mjög stutt og snubbótt frekar þetta bréf, það er mjög skýrt að breska ríkisstjórnin ætlast til þess og eins og hún hefur gert allan þennan tíma að íslenska ríkisstjórnin tryggi það að samningurinn eins og Bretar munu samþykkja hann verði samþykktur af Alþingi og telja það fullkomlega eðlilegt að ríkisstjórnin geti þvingað fram þá niðurstöðu sem að viðsemjendur telja nauðsynlega.“

Áfram heldur hún:

„Það í raun og veru virðist vera, þetta eru ríki sem eru vön að hafa sitt fram í samskiptum við önnur ríki, vera valdameiri og þau gera það sem að þeim hentar og með því að sleppa því að svara þá er í raun og veru bara verið að sleppa því að segja nei, þetta skiptir ekki máli.“

Svona talar Silja Bára Ómarsdóttir um þetta bréf frá herra Gordon Brown og sami var eiginlega tónninn í bréfinu frá kollega hans í Hollandi sem hafði borist örfáum dögum fyrr, (Gripið fram í: Samfylkingar…) hann taldi ekki ástæðu til að dvelja neitt sérstaklega við þau sjónarmið sem höfðu komið fram í bréfi frá hæstv. forsætisráðherra. Þetta sýnir það sem við vorum að tala um í allt sumar, frekjan og yfirgangurinn í Bretum og Hollendingum í þessu máli er náttúrlega alveg makalaus. Þeir ætluðust til þess að við samþykktum nákvæmlega það sem þeir vildu. Nú hafa þeir látið okkur skrifa undir nýja samninga og því miður var það gert án þess að maður hefði almennilega vissu fyrir því hvað í þeim stóð. Þeir ætlast til þess að við samþykkjum þessa samninga orðalaust, það er það sem þeir vilja og það er það sem þeim finnst.

Við höfum rætt töluvert um það í sumar og hæstv. ríkisstjórn hefur lýst því mjög oft að við höfum verið afskaplega vinafá í kjölfar hrunsins og einnig langt fram eftir þessu ári. Ég ætla ekki að deila um að það varð gríðarlega mikið rót þegar bankarnir féllu og við áttum í verulegum erfiðleikum með að koma okkar sjónarmiðum á framfæri, sérstaklega gagnvart þeim ríkjum sem eru í Evrópusambandinu. En heimurinn er stærri en Evrópa, það eru fleiri lönd í heiminum. Ég hef sagt úr þessum stóli og ætla að segja það aftur að það er skaði hversu illa okkur hefur gengið að koma á betri samskiptum við Bandaríkjamenn, sérstaklega þegar litið er til þess hversu sterkir þeir eru innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það hefði verið mjög gott, og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að snúa sér að því, að koma á betri samskiptum við Bandaríkjamenn. Ég held að við verðum að átta okkur á því að heimurinn er dálítið stærri en þessi nafli hér og við verðum að fara að afla okkur vina hvar sem við komum. Mér finnst það ekki hafa tekist og ég skal lýsa því yfir, vegna þess að hér vilja menn oft meina að þetta hafi margoft komið fram, að mér er nákvæmlega sama hversu oft þetta hefur komið fram, það hefur ekki gengið nógu vel að koma upp betri samskiptum við aðrar þjóðir. Það hefur ekki gengið nógu vel og ég er alls ekki sannfærð, mér finnst það bara mjög ótrúlegt, um að verði þetta Icesave-mál afgreitt muni það allt saman komast í himnalag. Ég get ekki betur séð en að Evrópusambandið hafi alls konar aðrar skoðanir og sjónarmið uppi og það hafi ráðlagt þeim ríkjum sem hafa verið að hamast í okkur í marga mánuði.

Án þess að ég ætli að fara að halda ræðu um Evrópusambandið að þessu sinni vil ég nefna að ég sagði þegar Evrópusambandsumræðan var hér í sumar að ríkisstjórnin hefði haldið vitlaust á því máli. Það mál varðar líka hagsmuni íslensku þjóðarinnar um langa framtíð og mál af slíkum toga þurfa að vera í meiri samstöðu milli flokka, miklu meiri samstöðu. Þetta Icesave-mál hefur náttúrlega síðan þvælst mjög fyrir í þessum málum. Það hefði verið betra að geyma Evrópusambandsmálið þar til við höfum einhvern tíma þegar við erum komin út úr mesta kófinu eftir efnahagshrunið.

Ég ætla síðan að nýta seinni hluta ræðu minnar í að ræða áfram þá þætti sem mér finnst þurfa að taka til umfjöllunar, helst í allri fjárlaganefnd fyrir utan þessa stjórnskipulegu þætti sem ég nefndi sem eru grundvallarþættir í málinu og í samskiptum Alþingis við bæði dómsvald og framkvæmdarvald. Undanfarna daga hafa komið upp þættir sem er ástæða til að staldra við. Eftir að samningarnir voru samþykktir og við búin að koma nánar auga á það hvernig farið yrði með bú Landsbankans kom fram — og það kom einnig fram á fundum fjárlaganefndar í haust — að kröfunni sem innstæðutryggingarsjóðurinn beindi í þrotabú Landsbankans yrði snúið í íslenskar krónur. Gengisáhættan í þessu máli er alveg gríðarlega mikil og vegna þess að þetta var bundið við 22. apríl sl. höfum við þegar lent í vandræðum með þetta mál. Ég held að við höfum alls ekki fjallað nógu vel um þessa gengisáhættu og hvort hægt væri að leysa þetta mál einhvern veginn þannig að því yrði snúið í íslenskar krónur, þ.e. að við værum ekki að berjast við lán í erlendri mynt og síðan væri höfuðstóllinn í íslenskum krónum í þrotabúinu.

Síðan kom einnig fram nokkuð sem mér finnst að hefði þurft að ræða miklu betur, ég tala nú ekki um í hv. efnahags- og skattanefnd núna í haust, og það snýr að þessum blessuðu vöxtum. Ég fer fram á að það mál verði tekið upp í hv. efnahags- og skattanefnd. Ég skil ekkert í því hvernig hv. efnahags- og skattanefnd getur skilað áliti án þess að fara rækilega yfir vaxtahlutann í þessu vegna þess að vextirnir sem af þessu öllu saman hljótast eru allra mesta áhættan í öllu málinu. Vextirnir eru ekki forgangskrafa. Það er afskaplega ótrúlegt að upp í þá fáist nokkur skapaður hlutur og þetta vita menn. Þess vegna þarf að gaumgæfa það hvort við höfum haldið rétt á þessu vaxtamáli. (Gripið fram í.)

Daniel Gros og fleiri aðilar hafa bent á að vaxtamunurinn sem er á milli þess vaxtastigs sem við tökum lánin á, 5,55%, og þess sem Bretar og Hollendingar fjármagna sig á er 1,25% sem eru um 270 milljarðar kr. ef allt er umreiknað til 2016. Þessar tölur eru svo óskaplega stórar, virðulegi forseti, að ég held að við þurfum öll stundum að setja þær í samhengi við það sem er nær okkur í umhverfi. Við erum líka að ræða fjárlagafrumvarpið í hv. fjárlaganefnd og ég tók af handahófi nokkrar tölur úr fjárlagafrumvarpinu til að setja í samhengi við þessa 270 milljarða sem vaxtamunurinn er. Það kostar 250 millj. kr. á ári að reka Læknavaktina. Við getum rekið Læknavaktina í þúsund ár fyrir 270 milljarða. Það kostar 1,1 milljarð að reka fangelsi. Við getum rekið fangelsin í landinu, þar sem vandinn er mikill, fyrir 270 milljarða í 200 ár.

Þetta eru mjög áhugaverðar tölur. Ég vil taka fram (Gripið fram í.) að ég geri mér fulla grein fyrir því að á þjóðina hafa verið lagðar skuldir sem eru henni þungbærar og það kostar mikið að borga þær. En þegar við erum að takast á við hluti sem við gætum hugsanlega haft með öðrum hætti finnst mér sjálfsagt að setja þetta í ákveðið samhengi. Við borgum 3,5 milljarða í svokallaðan umsýslukostnað og við getum skoðað sjómannaafsláttinn í því samhengi. Hann er á þessu ári 1,1 milljarður. Áform þessarar ríkisstjórnar eru að láta hann fjara smám saman út á næstu árum en umsýslukostnaðurinn vegna Icesave núllar það faktískt út.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur nefnt nokkuð þá ákvörðun að hafa fasta vexti 5,55% í stað þess að hafa þá breytilega. Ef staðan er eins og hún er núna og verður um nokkurt skeið gætum við grætt 90 milljarða á því að vera með breytilega vexti. Það má reka Menntaskólann í Reykjavík sem er nú í töluverðum vandræðum og ég er mjög mikill áhugamaður um að gangi vel í 400–500 ár fyrir þá upphæð. Ég nefni þetta sérstaklega með breytilegu vextina núna vegna þess að það er ákveðin hætta á því að heimurinn muni fara mun hægar upp úr kreppunni en við höfum vonast til undanfarið.

Í þessu samhengi langar mig til að ræða það ástand sem hefur skapast í Dúbaí. Núna eru Dúberjar í gríðarlegum erfiðleikum þar sem þeir virðast nánast búnir að keyra sig í þrot. Þótt Dúbaí sé langt í burtu er það nær en við hyggjum. Bretar eru gríðarlega umfangsmiklir í Dúbaí og Royal Bank of Scotland, RBS svokallaður, er með 15 milljarða dollara undir þarna. HSBC, sem er annar stöndugur breskur banki, er stærsti „underwriter“ að lánum í Dúbaí. Ástandið þar getur haft gígantísk áhrif í Englandi, (JónG: Það er allt að fara til helvítis.) virðulegur forseti, og þó vitum við það ef við lesum viðskiptablöðin í Englandi að þeir hafa haft töluverðar áhyggjur fyrir. Ekki var á það bætandi að fá þessar fréttir af Dúbaí sem komu frekar óvart í lok síðustu viku.

Herra Gordon Brown tjáir sig um þetta mál í Financial Times 26. nóvember þar sem hann ætlar náttúrlega að beita sér alveg sérstaklega sem forustumaður núna í G20 ríkjunum til að tryggja hagsmuni Breta. Hann vonast til þess að hægt verði að finna einhverja lausn á þessu máli þannig að það fari ekki of illa fyrir Breta. Og við skulum alveg vera klár á því að herra Gordon Brown mun ekkert gefa eftir, ekki tommu, til að tryggja hagsmuni Breta og ég verð að vonast til þess að hann geri það vegna þess að þetta hefur bein áhrif á okkur.

Þeir í Dúbaí hafa verið mjög stórkostlegir í sinni uppbyggingu á ótrúlegustu hlutum og maður hefur stundum tekið það sem dæmi um hvað síðustu ár hafi verið óskapleg að í furstadæminu Dúbaí hafa menn smíðað skíðabrekkur. Og það er það sem Royal Bank of Scotland mun núna þurfa að blæða fyrir.

Þetta vekur líka fleiri spurningar, þetta mál með Dúbaí, m.a. hvernig lánasafni Landsbanka Íslands sé háttað í útlöndum. Vegna þess að Landsbanki Íslands var mjög umfangsmikill í Bretlandi og vegna þess að þessar stærstu bankastofnarnir í Bretlandi voru síðan áfram gríðarlega umfangsmiklar í Dúbaí væri mjög fróðlegt að vita hvort einhver hluti af lánasafni Landsbankans sé í Dúbaí. Ef svo er er væntanlega ekki líklegt að við fáum mikið út úr því. Tengingarnar inn í RBS skipta líka miklu máli. Þetta með Dúbaí, og þetta er bara að koma upp núna, skiptir verulegu máli í Icesave-málinu.

Lítum aftur á þetta með breytilegu vextina. Hefði verið hægt eða er hægt að hafa vextina þannig að það sé hægt að skipta, það sé ekki bara búið að ákveða að það eigi að vera 5,55% vextir allan tímann? Það er alveg alþekkt í alþjóðalánasamningum. Þessar fréttir um Dúbaí renna stoðum undir það að vextir verði áfram lágir, að breytilegir vextir verði lágir, og þeir geta orðið það um lengri tíma en við hugðum. Ég tek það fram — nú sé ég að hæstv. fjármálaráðherra er kominn hér inn og ég vil ekki að hann haldi að ég sé bara svartsýn, ég vona auðvitað að þetta í Dúbaí verði ekki Bretum allt of erfitt en ég held að það sé alveg full ástæða til að hafa áhyggjur af því að það muni hafa áhrif í Bretlandi. Ég held að það geti líka leitt til þess að vextir verði áfram lágir og þá eru það frekari rök fyrir því að breytilegir vextir geti verið hentugri fyrir Íslendinga vegna þess að kúfurinn af höfuðstólnum er á allra næstu árum. Síðan vonumst við auðvitað til þess að einhverjar endurheimtur verði á búinu til að lækka höfuðstólinn. Þetta samhengi hlutanna er svo mikilvægt. Ég verð að segja alveg eins og er að það er óskaplegt hvað Bretar hafa lagt mikla fjármuni þarna suður frá og það verður nokkuð flókið fyrir Breta, þá fjármálamiðstöð, að leysa úr þeim flækjum öllum saman.

Ég fer sem sagt fram á það við hv. formann fjárlaganefndar, Guðbjart Hannesson, að þessi þáttur verði á meðal þeirra sem verða teknir til skoðunar og ég held að það sé alveg óumflýjanlegt að hv. efnahags- og skattanefnd skoði þetta og að við áttum okkur betur á vaxtakjörunum. Vextirnir eru mesta áhættan fyrir okkur, þeir munu skapa okkur mestan vanda í þessu og ef einhver von er til þess að gera það betra fyrir okkur eigum við að sjálfsögðu að athuga það.

Að minnsta kosti eigum við að fara almennilega í gegnum það hvað þetta þýðir og ef menn síðan komast að þeirri niðurstöðu að betra sé að hafa 5,55% fasta vexti er það þá niðurstaða sem menn komast að. Ég er hins vegar á annarri skoðun, (Gripið fram í: Það er ekki hægt að komast að …) en ég vil þá fá að heyra rökin fyrir því. Það er þetta sem ég vil að verði rætt í fjárlaganefndinni, sérstaklega þetta, afmörkun ríkisábyrgðarinnar sem er afskaplega mikilvæg og þau sjónarmið sem uppi hafa verið af hálfu Sigurðar Líndals prófessors, hvernig búinu er skipt og það að vextirnir verði eftirstæð krafa í gjaldþrotarétti. Það er auðvitað nokkurt vandamál. Ég tók eftir því núna þegar ég var að lesa fréttirnar á veraldarvefnum að þar var verið að dæma í máli þar sem menn fóru fram á að dráttarvaxtakröfur yrðu hluti af höfuðstól. Því var að sjálfsögðu hafnað, enda er það í samræmi við gjaldþrotarétt. Við vitum að þetta er svona, við vitum að vextirnir af þessari kröfu eru eftirstæð krafa og við höfum fulla ástæðu til að halda það. Það er ekkert svartsýnishjal, í svona stóru þrotabúi eru ekki mjög miklar líkur til þess að nokkuð fáist upp í eftirstæðar kröfur. Þess vegna skulum við bara gera okkur grein fyrir því hvað þessir vaxtaþættir þýða og þá skulum við líka gera okkur grein fyrir því að það eru enn þá hræringar á alþjóðlegum mörkuðum og þær hafa bein áhrif á Icesave-málið.

Við vitum að það mun auðvitað taka töluverðan tíma að leysa úr ágreiningnum um bú Landsbankans og ég vona að það muni allt leysast farsællega fyrir okkur. Það tekur ákveðinn tíma og á meðan er ekki greitt eins hratt inn á höfuðstólinn, en jafnvel þó að sá ágreiningur taki einhverja mánuði mun væntanlega ganga hægt og rólega á höfuðstólinn eftir svona 2–3 ár.

Tíminn er svo fljótur að líða, þetta er umfangsmikið mál og það er margt sem þarf að fara í gegnum í þessu. Ég held að í þessari atrennu skipti mestu máli að draga fram þau atriði sem þarf að fara betur í gegnum. Það verður að gera það. Mér finnst líka skipta máli þegar maður lítur til þess hvernig Bretar og Hollendingar svara forsvarsmönnum okkar ríkisstjórnar og hvaða skoðanir þeir hafa á þeim samskiptum öllum að það er ljóst að reyna mun á Evróputilskipanirnar hvernig sem þetta allt saman fer. Það eru ekki mjög miklar líkur til þess að okkur muni ganga mjög vel að fá Breta og Hollendinga til að taka þennan samning upp komi til kasta dómstóls einhvers staðar annars staðar sem við höfum enga aðild að. Þetta eru Evrópureglur sem eru alls ekkert hugsaðar í kerfishruni og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollendinga, sem var ekki beint sérstaklega liðlegur við Íslendinga í þessu máli, var fljótur að lýsa því yfir þegar hann óttaðist um hollensku fjármálamiðstöðina — við skulum ekki gleyma því að Hollendingar eru mjög slyngir bankamenn — að þessi tilskipun ætti ekki við um kerfishrun, nei, nei, nei, aldeilis ekki. Það skipti náttúrlega engu máli þegar litla Ísland var annars vegar, þá skyldi hver einasta króna borguð. Þetta er bara viðhorfið. Þessar bréfaskriftir sýna að þetta er viðhorfið og ég á mjög erfitt með að fella mig undir slíka kvalara.

Ég held, virðulegi forseti, að áður en við göngum endanlega frá þessu máli þurfum við að gera okkur grein fyrir því hve mikil pressan er. Aðalpressan í þessum sölum núna er að ganga í þau verk sem við þurfum að ganga í í ríkisfjármálunum. Við verðum að koma fjáraukalagafrumvarpinu og skattafrumvörpum á dagskrá og ég ítreka að stjórnarandstaðan er reiðubúin til að hliðra til í dagskránni svo hægt sé að taka þau brýnu mál fyrir. Á meðan geta menn nýtt tímann og farið yfir þau álitaefni sem ég var að reifa. Þá gefst ágætur tími til að fara yfir þau þannig að við getum tekið til við þetta mál þegar einhver viðhlítandi svör hafa fengist enda liggur fyrir, og um það er ekki deilt, að það er engin krafa af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þetta mál. Lánin eru öll að koma og við getum tekið tíma í að verja hagsmuni okkar eins vel og við getum. Okkar bíður annað og mikilvægara verkefni núna, það að koma ríkisfjármálunum af stað. Skattbreytingarnar eru gríðarlega umfangsmiklar. Við erum ekki farin að ræða þær enn þá, þær voru nýlega lagðar fram og þingmenn eiga eftir að rýna þær. Við þurfum að gefa okkur ákveðinn tíma til þess. Það er mjög mikilvægt að þær komist á dagskrá og ég held að það væri mjög gott ef við gætum náð samstöðu um það í þessum sal að leggja þetta mál núna til hliðar og taka hin málin strax á dagskrá og koma þeim til nefnda. Á morgun er laugardagur og það er ekkert þing á þriðjudaginn þannig að tíminn er afskaplega naumur.

Ég ætla ekki að fara lengra núna, tíminn er runninn út og ég þarf kannski að tjá mig betur um þau atriði sem ég vildi koma betur inn á í annarri ræðu. Aðalatriðið er að áður en þessu máli lýkur í þinginu séum við búin að velta við öllum steinum og líka búin að fylgjast með því sem er að gerast núna í heiminum og kanna hvaða áhrif það hefur á þessa skuldbindingu. Það skiptir öllu máli fyrir okkur. Ég fer fram á það við formann fjárlaganefndar og óska eftir því að þetta mál verði tekið til rækilegrar skoðunar milli (Forseti hringir.) 2. og 3. umr.