138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir afar athyglisverða, yfirgripsmikla og málefnalega ræðu, fyrir utan það hvað hún var uppfull af nýjum upplýsingum sem ég vona svo sannarlega að menn hafi almennt verið að hlusta á annars staðar í húsinu vegna þess að hér hefur verið tiltölulega fámennt. En mér þótti þingmaðurinn nefna marga afar athyglisverða punkta og þá vil ég sérstaklega nefna Dúbaí-vinkilinn og áhrifin sem orðið gætu af óförum þar og áhrifum á breskt hagkerfi. Þingmaðurinn nefndi að Dúbaí væri langt í burtu og maður skyldi ætla að það hefði ekki sérstaklega mikil áhrif hér en við höfum öll heyrt um, og þetta mál er kannski besta dæmið um það, áhrifin af hruni okkar á litla Íslandi í fjarlægum og stórum löndum. Þetta sýnir enn á ný hversu heimsbúskapurinn er tengdur og þess vegna þurfum við að taka þetta allt saman afar alvarlega.

Ég vil líka hrósa öðrum samflokksmanni mínum fyrir afar góða ræðu í dag og það er hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem kom að sjómannasið og stappaði stálinu í fólk, hvatti okkur til að standa saman og berjast og lýsti því hve hann væri dapur yfir því að við hefðum ekki náð að halda áfram þeirri samstöðu sem náðist í sumar. Hann sagði eitthvað á þá leið að auðvitað væri búið að eyðileggja samstöðuna, auðvitað hefði ríkisstjórnin ekki nýtt það tækifæri og mér fannst það lýsa því mjög vel hvernig okkur líður öllum.

Eins og þingmaðurinn sagði langar okkur öll að standa saman og berjast saman á móti þeim þjóðum — hv. þm. Ólöf Nordal lýsti svo vel eindrægni þeirra í eigin hagsmunagæslu og eindrægni í því að ná fram markmiðum sínum. Og eðlilega. Þjóðir berjast fyrir hagsmunum sínum. Allir Íslendingar, held ég, kalla eftir því að við stöndum saman og berjumst og það má ekki taka því persónulega. Hæstv. ráðherrar mega ekki taka því persónulega þó að við séum að gagnrýna, það er hlutverk okkar í stjórnarandstöðu. Ég held að hæstv. ríkisstjórn hefði frekar átt að segja í sumar: Komið þið þá með okkur í þennan leiðangur. Berjumst í þessu saman. Það hefur verið lagt til, formlega í forsætisnefnd, af hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem lagði til að skipaður yrði þverpólitískur hópur til að kynna málstað okkar úti í heimi og hv. þm. Pétur Blöndal talaði einna mest fyrir því sjónarmiði í sumar. Það er sorglegt að það tækifæri hafi ekki verið nýtt.

En við höfum enn þá tækifæri og ég vil nota tíma minn í dag í að hvetja okkur áfram til að nýta okkur það. Við getum snúið af leið, og ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að hlusta á það, og við getum náð aftur þessari samstöðu. Ég trúi ekki öðru. Ég hef átt samtöl við hv. þm. Ögmund Jónasson. Hann hefur ekki sagt það beint en ég sé það á honum að honum líður ekkert vel með þetta. Hann á eftir að koma hingað og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og ég veit að hann hefur fylgst vel með þessari umræðu. Ég get ekki trúað því að honum líði vel með þann farveg sem málið er komið í vegna þess að eftir því sem maður skoðar það betur erum við því miður að nálgast aftur byrjunarreitinn.

Ítrekað hefur verið spurt í þessari umræðu: Hvað viljið þið gera? Þið viljið ekki þetta, hvað viljið þið gera? Mitt svar við því er mjög einfalt. Ég vil að lögin frá því í sumar standi. Ég vil að núverandi fyrirvarar verði látnir standa, að við, nákvæmlega eins og hv. þm. Ólöf Nordal lýsti svo vel áðan, af hálfu Breta og Hollendinga — við viljum sýna okkar styrk, sýna viðsemjendum okkar að íslenska þjóðin standi saman og þingið sé sterkt og endurómi vilja þjóðarinnar. Við getum svo margt ef við stöndum saman og áður hefur verið sýnt fram á það. Ef í ljós kemur að viðsemjendur okkar eru ekki tilbúnir til að fallast á þessar kröfur þá eigum við að standa saman í því að leita réttar okkar, standa saman í því að fá úr því skorið hvaða skuldbindingar falla á okkur. Við höfum alltaf sagt, sjálfstæðismenn, og ég held allir í þessum sal: Auðvitað stöndum við við skuldbindingar okkar. Við viljum bara fá úr því skorið klárt og kvitt hverjar þær eru.

Við vorum tilbúnir í sumar að klára þessa fyrirvara á þann veg að semja um málið en þó með því sniði að áhættan yrði tekin út, við takmörkuðum ríkisábyrgðina í tíma og í upphæð þannig að við vissum að íslenska þjóðin gæti staðið undir því ef illa færi. Það var lykilatriðið í efnahagslegu fyrirvörunum. Ég tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, sem talaði fyrr í dag, ég er líka orðin döpur yfir þessu máli. Ég hef sannfærst um að aldrei hafi staðið til að leyfa okkur að breyta einu eða neinu. Þetta frumvarp er klárlega þannig, og hæstv. fjármálaráðherra viðurkenndi það í ræðu sinni, að þetta væri komið í skýran og endanlegan búning. Hann sagði það eins skýrt og hann gat án þess að segja: Kæri þingheimur, þið megið ekki breyta neinu. Hann sagði: Þetta er komið í skýran og endanlegan búning. Og fyrir mér er það mjög skýrt og endanlegt svar af hálfu hæstv. fjármálaráðherra.

En þá er það spurningin: Máttum við breyta einhverju eftir 5. júní? Voru fyrirvararnir sem við sömdum í sumar í sameiningu og við stóðum að, þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með öllum þessum fyrirvörum þó við hefðum á endanum kosið að greiða ekki atkvæði með frumvarpinu sjálfu af þeim ástæðum sem öllum eru kunnar, það er of tengt samningnum frá 5. júní og við lýstum fullri ábyrgð ríkisstjórnarinnar á honum. En máttum við breyta einhverju í upphafi? Máttum við gera fyrirvarana? Eftir að hafa rýnt í einu fundargerðina — og nú kemur gamla, slitna platan sem fólk er farið að kannast við í þessum sal, alla vega þeir sem hafa verið duglegir við að sitja — af fundi íslensku samninganefndarinnar 1. og 2. september 2009 með Hollendingum og Bretum þar sem fyrirvararnir voru kynntir, eftir að hafa rýnt í þetta og skoðað orðalagið sýnist mér kynningin hafa farið fram eitthvað á þessa leið: Við reyndum að koma ríkisábyrgðafrumvarpinu í gegn. Okkur tókst það ekki og vegna þess að þingið sýndi styrk sinn og fjárlaganefnd stóð sig í verkefninu gátum við ekki annað en samþykkt þessa fyrirvara. En nú skulum við setjast niður og við skulum vinna út úr því hvernig við getum komist hjá því að þeir verði virkir. Ég ætla að lesa aftur málsgrein sem ég las upp í andsvari fyrr í dag, með leyfi forseta, en þar er verið að lýsa því hvernig þetta var innleitt:

„Á fundinum daginn eftir byrjaði RA á því að fara yfir stöðu málsins á Íslandi og pólitíska afgreiðslu þess. Lagði hún áherslu á hvað málið hefði verið viðkvæmt pólitískt og stjórnvöld höfðu lagt sig mjög fram um það að fá lögin um ríkisábyrgðina samþykkt.“ — Þarna var verið að útskýra hversu hart íslensk stjórnvöld hefðu sótt það að fá lögin um ríkisábyrgðina samþykkt. „Hefði það verið tvísýnt og í þeim tilgangi að tryggja það hefði verið nauðsynlegt að fallast á þá fyrirvara og skilyrði sem sett voru í lögunum.“ — Þetta var svona: Krakkar mínir, sorrí en við gátum ekki komist hjá þessu. „Í þessum efnum hefði Alþingi og fjárlaganefnd haft mikið að segja og stýrt þróun málsins.“

Ég get ekki skilið þessa málsgrein öðruvísi en svo að þessi fundur, 1. og 2. september, hafi ekki snúist um það að kynna fyrirvarana og láta Breta og Hollendinga annaðhvort samþykkja þá eða fella heldur að reyna að sannfæra þá um að það væri leið út úr þeim. Þess vegna hef ég verið að kalla eftir fleiri fundargerðum, ég hef verið að kalla eftir frekari gögnum. Ég er búin að biðja um þetta í sumar, ég er búin að biðja um þetta í öllum þeim ræðum sem ég hef flutt um þetta mál. Nú er svo komið að ég gafst upp á því að reyna að fá svör frá hæstv. ráðherrum í umræðunni og ég hef lagt fram formlega fyrirspurn, eina til utanríkisráðherra og aðra til hæstv. fjármálaráðherra, um þessar fundargerðir. Ég ætla að leyfa mér að lesa þessar fyrirspurnir upp þó að þær séu ekki orðnar formlegt þingskjal, það getur verið að orðalagið eigi eitthvað eftir að breytast. Fyrri fyrirspurnin til utanríkisráðherra er í tveimur liðum. Fyrsti liðurinn er í þremur liðum:

1.a. Liggja fyrir fundargerðir af 20–60 mínútna fundum utanríkisráðherra við þrjá þjóðhöfðingja og 12–14 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna á tímabilinu frá miðjum september 2009 til 22. október 2009?

Ég spyr þessara spurninga vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra sagði í þingræðu að hann hefði átt á fjögurra vikna tímabili frá 22. október fundi með þessum fjölda aðila og ég spyr hvort til séu fundargerðir af þessum fundum.

1.b. Ef þær eru til, stendur til að birta þær?

1.c. Ef ekki eru til fundargerðir af þessum fundum, af hverju voru þær ekki gerðar?

Hæstv. utanríkisráðherra tók það nefnilega sérstaklega fram að hans fundir væru engir lyftufundir. Hans fundir væru skipulagðir 20–60 mínútna fundir sem væru fyrir fram ákveðnir með fyrir fram ákveðinni dagskrá. Hann sagðist hafa rætt Icesave beinlínis augliti til auglitis við þessa menn og þetta er allt í þingræðunni þannig að hann hlýtur að svara þessu.

Ég spyr hann með sama hætti um fundargerð af fundi hans með Dominique Strauss-Kahn þann 22. september sl. þar sem hann sagðist hafa átt gagnleg og hreinskiptin samskipti um Icesave-málið. Þetta er fyrirspurnin sem ég hef lagt fram til hæstv. utanríkisráðherra.

Ég er einnig með fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra og spyr hann á sama hátt hvort til séu fundargerðir eða frásagnir af fundi samninganefndar Íslands með breskum og hollenskum viðsemjendum um Icesave eftir að Alþingi samþykkti lögin um ríkisábyrgð 28. ágúst sl., önnur en sú sem hér hefur verið gerð opinber og ég hef verið að vitna í í ræðum mínum, og ef þær eru til hvort til standi að birta þær, og ef þær eru ekki til hvers vegna það sé.

Ég spyr hann líka um fundargerðir vegna funda hans sjálfs vegna Icesave-málsins með erlendum aðilum, til að mynda í Istanbúl, en hann vitnaði sérstaklega til þeirra funda í andsvari við mig við 1. umr. þessa máls. Þetta er ég ekki að setja fram í illum tilgangi. Ég vil bara fá að vita þetta og ég vil fá að meta það sjálf hvort menn hafi gert þetta af þeim fyllsta krafti og þeirri fullu einurð sem ég tel að mönnum hafi borið að gera. Ég vona svo sannarlega að það valdi því ekki að þessi ræða mín falli undir rannsóknarskýrslu sem hæstv. forsætisráðherra var að biðja um að yrði tekin um hversu oft hæstv. ráðherrum hefði verið brigslað um eitthvað í þessari umræðu vegna þess að það vakir ekki fyrir mér.

Virðulegi forseti. Þessi tími líður alveg ótrúlega hratt og nú á ég einungis 6 mínútur eftir og ég á mörg efnisatriði eftir þannig að mér sýnist að þetta verði ekki mitt síðasta orð í þessari umræðu. Mikið hefur verið rætt um tengsl Icesave og ESB og í mínum huga eru þau tengsl algerlega skýr vegna þess að ég hef heyrt það sjálf. Mér hefur verið sagt frá þeim tengslum frá fyrstu hendi frá breskum og hollenskum þingmönnum. Það skiptir því ekki máli fyrir mér hvernig meint ályktun af Evrópuþinginu er túlkuð. Ég veit og er sannfærð um að þessi mál tengjast. En það er samt athyglisvert að sjá baráttu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar við að reyna að sannfæra þing og þjóð um að þessi ályktun hafi ekki verið gerð á Evrópuþinginu, ályktun gegn aðildarumsókn Íslands þar sem verið var að spyrða þessi tvö mál saman. Þingmaðurinn hefur verið óþreytandi, bæði í þingsal og á fundi utanríkismálanefndar, við að reyna að sannfæra fólk um að þetta tengist alls ekki neitt og það sé ekki rétt hvernig ályktunin hefur verið túlkuð í pressunni og á Bloomberg-fréttaveitunni. Þá sá ég á eyjunni.is í dag vangaveltur um það hvort ályktun ESB hafi verið hótun um að fresta aðildarviðræðum vegna Icesave eða ekki. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ísland hefur gefið upp á bátinn áform um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið í næsta mánuði eftir að sambandið sagði að óleyst deila um kröfur breskra og hollenskra innlánseigenda kæmi í veg fyrir að umsókninni yrði þokað áleiðis. Þetta er staðhæft í frétt Bloomberg-fréttaveitunnar í dag og vísað til ályktunar ESB-þingsins í gær um stækkunarmál. Bloomberg flutti svipaða frétt af málinu í gær. Haft er eftir Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að miðað við aðstæður sé ólíklegt að Ísland fái stöðu umsóknarríkis fyrr en í mars. Bíða þurfi þess að sambandið staðfesti nýja framkvæmdastjórn ESB. Hann segist telja skynsamlegt að Icesave-umræðan sé að baki áður en næsta skref sé stigið.“

Í huga hæstv. utanríkisráðherra tengjast þessi mál ekki neitt en það er samt betra að þau séu aðskilin með þeim hætti að við klárum Icesave-umræðuna hér og hann lætur hafa eftir sér í Morgunblaðinu í dag að hann sé aldeilis sáttur við töfina í Brussel en það er nú eitthvað nýtt að hann sé sáttur við að hraðametið hans sé mögulega í hættu. En af hverju skyldi hann vera sáttur við það? Er það af því að þessi mál eru svona ótengd? Ég spyr hv. þingheim: Haldið þið að það sé þannig? Nei, ég held ekki. Auðvitað átti þessi ályktun við um Icesave. Það sér hver heilvita maður. Bloomberg-fréttaveitan sér það. Það sjá það allir nema hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og hæstv. ríkisstjórn. En það sem er athyglisvert er að menn reyna samt að halda þessu fram alveg eins og hæstv. ráðherra reyndi í umræðunni í sumar að halda því fram að fyrirvararnir væru betri í því frumvarpi sem hér liggur fyrir en þeir sem við samþykktum á þinginu í sumar. Það finnst mér svo ótrúlegt í þessu máli. Það er verið að reyna að telja manni trú um að hvítt sé svart og svart sé hvítt. Ég verð að segja það við hæstv. ráðherra að hann eigi að gefa okkur þingmönnum aðeins meira kredit, svo að ég fái að sletta aðeins, vegna þess að við sjáum í gegnum þetta.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um forsetann og hvort hann hafi, með skýringum sínum við staðfestingu laganna í sumar, sett sig í þá stöðu að ef fyrirvörunum yrði breytt yrði hann að synja lögunum staðfestingar vegna þess að hann setti þá ófrávíkjanlega í samhengi. Ég kíkti á heimasíðu Indefence-hópsins fyrir stuttu, fyrir svona hálftíma. Þá höfðu 7.790 Íslendingar skráð sig á þessa heimasíðu á held ég sólarhring. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvenær undirskriftasöfnunin hófst en ég veit að ég kíkti hálftímanum áður og þá voru 7.628 þannig að maður sér að það fjölgar þarna um yfir 100 manns á hálftíma, klukkutíma sem sýnir mér að það er ekki ánægja með þennan samning meðal Íslendinga. Eins og hér hefur komið fram er sjálfsagt að álykta að forseti Íslands verði sjálfum sér samkvæmur og íhugi vel hvort þessir fyrirvarar uppfylli þau skilyrði sem hann setti sjálfum sér með yfirlýsingu sinni fyrr í sumar.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki sagt mitt síðasta orð í þessari umræðu. Tíminn líður allt of hratt en ég læt það bíða nýrrar ræðu.