138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Enn og aftur ræðum við Icesave. Ég er búin að fá algerlega nóg af þessu máli, undirlægjuhættinum við Evrópusambandið, kúgunum Breta og Hollendinga, réttlætingu sumra þingmanna stjórnarliðsins sem tala jafnvel um að það sé siðferðisleg skylda okkar, frú forseti, að taka á okkur þessar ofurklyfjar. Ég er búin að fá upp í kok af þessu máli sem er að kljúfa þjóðina, sker á vináttubönd, skiptir fólki í fylkingar og kyndir undir skotgrafahernaði sem við megum alls ekki við núna, máli sem vofir yfir okkur öllum og getur knésett þjóðina, lokað hana inni í skuldafangelsi og gert okkur öll að skuldaþrælum. Ég veit að ég er ekki ein um að vera búin að fá nóg. Þjóðin er búin að fá allt of stóran skammt af þessu máli, máli sem er orðið eins konar táknmynd hrunsins, spýtan sem allt hangir á, fíllinn í stofunni sem þrengir svo að okkur að við getum ekki hreyft okkur og náum vart andanum. Við erum eins og laxinn sem hefur barist um fastur á önglinum en nú erum við orðin örmagna og auðveld bráð.

En einmitt þá er hættan mest, einmitt núna megum við ekki gefast upp.

Frú forseti. Í sumar fór fram merkilegt starf. Þingmenn unnu saman eins og þeir væru loks í einu liði og þeir smíðuðu fyrirvara sem mér þóttu, og þykja reyndar enn, snilldarlegir. Í ræðu minni í sumar sagði ég að þeir væru tær snilld svo lengi sem þeir héldu. Hæstv. utanríkisráðherra veitti mér andsvar sem ég vil fá að grípa niður í, með leyfi forseta. Hann sagði:

„Alþingi er fullvalda. Alþingi er fulltrúi þjóðarinnar allrar og það ræður fyrir Íslendingum. Því velti ég fyrir mér, af því að hv. þingmaður orðaði það svo að ganga yrði úr skugga um að fyrirvararnir héldu, hvort þeir fyrirvarar sem Alþingi setur með meiri hluta á þingi hljóti ekki að halda því það er Alþingi sem tekur ákvarðanir um þetta mál fyrir hönd Íslendinga og enginn annar getur það. Ef þessir fyrirvarar eru þannig að þeir takmarka með einhverjum hætti ábyrgð íslenska ríkisins þá hlýtur niðurstaða íslenska þingsins um það að gilda.“ — Það er þingið sem ræður.

Það sem svo gerðist var að ríkisstjórnin bar þau lög sem Alþingi setti í lok sumars undir Breta og Hollendinga. Þar voru fyrirvararnir, sem áttu svo sannarlega að halda að mati hæstv. utanríkisráðherra, tættir í sundur og eyðilagðir. Og hæstv. utanríkisráðherra hefur haldið því fram að nýju fyrirvararnir séu betri, frú forseti, betri en þeir sem við samþykktum í sumar, þeir sem eru bundnir í lög landsins.

Frú forseti. Í ræðum mínum í sumar fór ég m.a. yfir þá afstöðu mína að við Íslendingar ættum ekki að borga skuldir einkaaðila. Það er ekkert réttlæti í því að skuldum einkaaðila sé velt yfir á almenning, fólkið í landinu og jafnvel ófædd börn. Við stofnuðum ekki til þessara skulda og mér finnst ekki að ég eða börnin mín eða barnabörn eða nokkur annar en þeir sem til skuldanna stofnuðu eigi að greiða þær. Þetta er í mínum huga bara algjört prinsippmál. Þetta eru ekki okkar skuldir.

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar gerðar að ég vil borga skuldir mínar. Ég vil hafa mitt á tæru og ég þoli ekki þá tilfinningu að skulda einhverjum eitthvað. Mér finnst ömurlegt að fólk úti í heimi hafi tapað peningum á Icesave-reikningunum. Það tók vissulega áhættu með því að leggja þá inn á hávaxtareikninga, en hver hafði áhyggjur af því fyrir hrun? Að minnsta kosti ekki ég. Langflestir treystu bönkunum og ég held að fólk almennt hafi ekki hugsað mikið um það að bönkum væri kannski ekki treystandi. En mergur málsins er bara sá að hvorki ég né íslenska þjóðin tókum þessa peninga að láni. Það voru einkaaðilar sem ráðstöfuðu þessum innstæðum og sólunduðu þessu fé því að ekki hverfur fé af sjálfu sér. Og þjóðin á ekki að greiða skuldir einkaaðila. Við eigum ekki einu sinni að þurfa að vera hér og ræða þetta.

Nánast allir þeir sjálfstæðu umsagnaraðilar sem komið hafa að málinu, sérfræðingar í þrotlausri sjálfboðavinnu sem hafa ekki haft annan ávinning af því en þann sameiginlega ávinning sem allir Íslendingar hafa, eru sammála um að við getum ekki staðið undir þessum skuldbindingum. Þótt við féllumst á þá kröfu að við ættum að greiða — sem er auðvitað alls ekki raunin — getum við það bara ekki. Eins og bent hefur verið á í þinginu í dag, ekki einu sinni, heldur margoft, er skuldastaða landsins orðin háskaleg. Eins og fram kemur í nefndaráliti 2. minni hluta í efnahags- og skattanefnd vegna þessa máls er skuldahlutfallið langt yfir eðlilegum þolmörkum. Það þýðir rýrari lífskjör fyrir allan almenning í landinu, verulega skertan kaupmátt og mun minni neyslu svo hægt sé að greiða þessa skuld sem er í erlendum gjaldmiðli. Með rýrnandi lífskjörum almennings eykst hættan á landflótta. Og hverjir fara, frú forseti? Það er nefnilega fólkið sem getur farið, unga fólkið okkar, það fólk sem er best menntað og getur fengið vel launuð störf víða um heim. Það er einmitt fólkið sem er okkur svo nauðsynlegt, sem er í raun og veru fjöregg þjóðarinnar, það er einmitt það sem við eigum á mestri hættu að missa.

Frú forseti. Því hefur verið fleygt að það sé siðferðisleg skylda okkar að greiða þessa skuld. Ég er ekki sammála því að við eigum að bera ábyrgð á gölluðu regluverki Evrópusambandsins en þótt svo væri breytir það því ekki að við getum ekki greitt þessa skuld. Setjum upp annað dæmi, segjum að það væri siðferðisleg skylda mín að synda til Grænlands. Ætti ég að reyna það? Ég er ágæt í sundi, ég kæmist út fyrir höfnina en svo mundi ég drukkna og það er einmitt það sem ég er svo hrædd um að við gerum, við byrjum að reyna að borga, við borgum aldrei neitt nema vextina og þetta mun ríða okkur að fullu. Og þá kemur siðferðisleg skylda málinu mjög lítið við því að við einfaldlega getum ekki gert þetta. Hitt er svo annað mál að e.t.v. væri okkur betur borgið á Grænlandi.

Það er annað sem ég hef miklar áhyggjur af í sambandi við þetta mál, þingræðið á Íslandi. Mér hefur löngum fundist þingræðið of veikt og framkvæmdarvaldið hafa allt of mikil völd. Í sumar gerðist sá ánægjulegi atburður, og kannski sá eini í þessu annars ömurlega máli, að þingið tók valdið í sínar hendur, lagðist yfir málið eins vel og mögulega var kostur og gerði frumvarpið um Icesave viðunandi. Ekki gott, ekki frábært en viðunandi. Við lofuðum að gera eins vel og við gætum og borga eins mikið og við stæðum undir. Við tvinnuðum hagsmuni okkar Íslendinga saman við hagsmuni Breta og Hollendinga. Ef okkur vegnaði vel mundu bæði Bretar og Hollendingar fá meira upp í kröfur sínar. Út á þetta gengu efnahagslegu fyrirvararnir sem smíðaðir voru í sumar. Þeir gerðu ráð fyrir því að við deildum ábyrgðinni með öðrum. Með öðrum orðum, við komum okkur upp úr þeim pytti sem svo mörg lönd í heiminum eru í, að greiða einungis vexti af skuldum sínum og ná aldrei að narta í höfuðstólinn. Nánast allar tekjur þessara skuldsettustu ríkja heimsins fara í vaxtagreiðslur og auðlindir þjóðanna eru undir stjórn skuldunautanna. Við skulum ekki gleyma því, frú forseti, að mörg þau lönd í heiminum sem eru einna auðugust af auðlindum eru hve fátækust og ráða ekki við skuldabyrðar sínar. Það er sú staða sem ég óttast mest því að við vitum að margir ágirnast auðlindir Íslands.

Frú forseti. Einmitt þegar við vorum farin að hreykja okkur af sigri þingsins yfir framkvæmdarvaldinu tók framkvæmdarvaldið lög frá Alþingi, arkaði með þau til Bretlands og Hollands og bar þau undir nýlenduherrana. Hvers lags undirlægjuháttur er þetta, frú forseti? Þetta er gífurlegt áfall fyrir þingræðið í landinu. Skilaboðin eru þau að lög sem Alþingi setur gilda bara þegar það hentar framkvæmdarvaldinu. Og framkvæmdarvaldinu dettur í hug að bera íslensk lög undir útlendinga. Þetta eru íslensk lög sem gilda um ríkisábyrgð íslenska ríkisins. Það á ekki að koma til greina að bera þau undir einn eða neinn, allra síst útlendinga.

Frú forseti. Mig finnst skorta kjark í þessa ríkisstjórn. Hún þarf að standa í lappirnar og þora að bjóða viðsemjendum sínum birginn. Vilji Bretar og Hollendingar ekki gangast undir þau skilyrði sem Íslendingar setja verða þeir að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Þá fengjum við einnig úr því skorið hvort okkur ber að taka á okkur þessar skuldbindingar eða ekki.

Nú er málið aftur í höndum þingsins. Nú fáum við þingmenn tækifæri til að sanna að okkar lög eigi að gilda. Okkur ber að hafna nýja viðaukasamningnum, ekki bara vegna þess að hann er svo miklu verri kostur en gildandi lög, heldur vegna þess að þingræðið á Íslandi er í hættu ef við samþykkjum hann. Það má ekki gerast að framkvæmdarvaldið komist upp með að bera lög Alþingis undir erlendar þjóðir. Og okkur ber að reyna að kynna málstað okkar í Evrópu, t.d. með hópi þingmanna eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur bent á.

Frú forseti. Ábyrgð okkar er enn stærri og nær út fyrir strendur Íslands og þeirra þjóða sem vilja að við stöndum skil á Icesave. Með þeim efnahagslegu fyrirvörum sem smíðaðir voru hér í sumar var sleginn nýr tónn í lánasamningum þjóða. Fyrirvararnir hefðu getað orðið ný viðmið í samningum skuldsettra ríkja og gefið þeim fjölmörgu ríkjum, sem hafa verið í þeirri aðstöðu að geta ekki greitt annað en vexti skulda sinna, von um að þau kæmust einhvern tímann upp úr skuldasúpunni. Þegar allt hrynur, og við skulum ekki gleyma því að bankar hrundu á fleiri stöðum en hér, þarf að endurreisa og endursmíða kerfin. Í því felst tækifæri sem okkur ber að nýta. Með því að lúffa fyrir nýlenduveldunum tveimur erum við ekki einungis að herða snöruna um eigin háls heldur einnig háls allra þeirra ríkja sem hafa orðið eftir á þróunarbrautinni vegna þess að ríku löndin, lánardrottnarnir, gefa ekkert eftir og möguleikar þeirra til að hafa yfirhöndina í þeim slag eru ómældir. En nú, einmitt nú þegar þessi mikla uppstokkun fer fram, skuldir eru afskrifaðar hægri og vinstri, er tækifæri fyrir litla Ísland til að beita sér fyrir því að gefið sé á réttlátan hátt. Við megum ekki glata því tækifæri, tækifærinu til að gera heiminn að örlítið betri stað. Þetta kann að vera okkar stærsta tækifæri til þess og því verðum við að berjast fyrir tilverurétti fyrirvaranna, ekki aðeins vegna okkar, heldur þeirra þjóða sem hve verst er komið fyrir. Ég er sannfærð um að ef okkur tækist að koma öðrum til aðstoðar væri svo miklu auðveldara fyrir þjóðina að standa keik og sjá tilganginn með þeim hamförum sem hafa dunið yfir okkur.