138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það hljóti að vera ljóst að þegar menn taka að sér ábyrgðarstörf fyrir Alþingi og ríkið, þá megi gagnrýna störf þeirra þegar maður telur að þeir hafi ekki staðið sig í stykkinu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg ljóst og hafi ítrekað komið fram að viðkomandi stóðu sig ekki í stykkinu. En eins og ég sagði í ræðu minni þá er ábyrgðin á endanum hins vegar hjá hæstv. fjármálaráðherra, eins og hann sagði sjálfur í gær, hann ber ábyrgð á þessum mönnum. Það var hæstv. fjármálaráðherra sem setti þá í þessa stöðu og hefði að sjálfsögðu ekki átt að gera það í ljósi þeirrar afurðar sem þeir skiluðu síðan af sér. Hann valdi menn í samninganefndina sem réðu ekki við þetta geysistóra verkefni. Ég er ekki að segja að ég hefði staðið mig betur í þessu, en við hefðum átt að velja fólk sem hafði reynslu og þekkingu af því að standa í álíka samningum (Forseti hringir.) og við þá gagnrýni stend ég.