138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var yfirgripsmikil og fín ræða hjá hv. þingmanni enda er hann búinn að vera, ef ég má orða það þannig, upp fyrir herðar í þessu máli öllu saman og þekkir það því út og inn, bæði sögu þess og það starf sem þar hefur verið unnið. Ég er að velta fyrir mér nokkrum hlutum varðandi málið. Nú hefur verið töluvert mikið rætt um hina efnahagslegu fyrirvara og þá út frá því hvort þeir séu í raun farnir út úr því frumvarpi sem nú liggur fyrir eða orðnir mjög veikir miðað við sem áður var. Meðal annars hafa tveir af okkar færustu lögmönnum, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, ritað grein þar sem þeir lýsa efasemdum um eða lýsa því að í raun sé verið að kippa þessum fyrirvörum úr sambandi að miklu eða öllu leyti.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í hvert markmiðið hafi í raun verið með efnahagslegu fyrirvörunum þegar þeir voru fyrst settir inn. Ég álít að það sé mjög mikilvægt að við höldum því til haga og höfum það alveg á hreinu að með þeirri vinnu og þeim fyrirvörum sem voru settir inn í frumvarpið í ágúst — þó svo við að við höfum mörg hver ekki verið sátt við endanlega útgáfu þess eða sátt við að það liti út eins og það gerði — var það þó hugsanlegt að efnahagslegt slys á Íslandi hefði orðið minna ef samningurinn hefði allur náð fram að ganga með þeim hætti sem boðað var, þ.e. með fyrirvörunum. Mig langar að spyrja þingmanninn um þessa fyrirvara.