138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir andsvarið og þau skoðanaskipti sem hér hafa átt sér stað. Ég vil jafnframt biðja hana afsökunar á því að hafa bendlað Daniel Gros við Framsóknarflokkinn en ég tek undir óskir hennar um það að hann láti verða af því að ganga í þennan góða og elsta stjórnmálaflokk landsins. Ástæða þess að maður gantast örlítið með þetta er sú að sumir stjórnmálaflokkar, sérstaklega Samfylkingin, hafa gumað af því að eiga systurflokka erlendis og ég man ekki betur en hæstv. utanríkisráðherra hafi verið mjög stoltur af því að segja þjóðinni frá því að hann væri félagi í Verkamannaflokknum breska, greiddi þangað árgjöld. Það ættu því að vera hæg heimatökin hjá honum, hæstv. ráðherra, að eiga viðræður við samflokksmenn sína þar. Ég hef nú reyndar grun um að hæstv. utanríkisráðherra hafi gengið úr þeim flokki sem þar er við stjórnvölinn nú.

Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar áhyggjur sem lúta að þeim þáttum sem hv. þm. Ólöf Nordal gerir að umtalsefni. Það liggur einfaldlega fyrir að Bretar hafa gríðarlega hagsmuni bundna í Dúbaí. Þó að ég sé sérfræðingum á ýmsum sviðum er ég enginn sérfræðingur í málefnum Dúbaí, og ég veit ekki hverjir þeir sérfræðingar eru, en það er mér nóg að vita að gamla breska heimsveldið á gríðarlegra hagsmuna að gæta í því hagkerfi sem þar er. Ef það er að hristast og liðast í sundur er óhjákvæmilegt að það hafi áhrif á öll önnur utanríkissamskipti Breta, þar með talið þetta mál.

Ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þingmanni um það hvernig fjárlaganefnd þyrfti að vinna. Ég er raunar þeirra skoðunar að efnahags- (Forseti hringir.) og skattanefnd þurfi líka að taka þetta mál til umfjöllunar, ekki síst það sem lýtur að gengisóvissu og vaxtamálum.