138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hér til að ræða fundarstjórn og biðja hæstv. forseta að koma áleiðis til ríkisstjórnarinnar og þeirra sem stjórna þinginu, forseta og annarra, því tilboði sem stjórnarandstaðan lagði fram í gær eða fyrradag, ég man ekki hvort það var, um að því máli sem við ræðum yrði vikið til hliðar tímabundið svo að á dagskrá gætu komið mörg önnur brýn mál sem liggja fyrir þinginu. Má þar nefna mál er varða skattamál og fjáraukafrumvarp og svo fjárlögin í framhaldi af því og ekki veitir okkur af tímanum. Ég vil koma því á framfæri, frú forseti, að tilboðið stendur enn, að þessi mál ríkisstjórnarinnar komi á þing, þau verði rædd í umsaminn tíma og að því loknu getum við aftur rætt þetta mál.