138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var nú töluverð umræða hér í gær um það að skortur væri á ráðherrum á ráðherrabekknum. Ég vil því þakka sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra fyrir að sitja hér á laugardagsmorgni. Hann verður vonandi með okkur í dag. Þegar ég var að flytja ræðu mína sat hv. þm. Guðbjartur Hannesson hér í hliðarsal og var greinilega að fylgjast með umræðunni. Hann er hins vegar horfinn úr augsýn og ég hefði mikinn áhuga á að heyra hvort hann sé enn í húsi og hvort hann hafi ekki örugglega gert ráðstafanir til að geta verið hér í dag. Það var mjög óþægilegt að haldinn skyldi fundur í mjög mikilvægri nefnd í sjávarútvegsráðuneytinu í gær og að settur hafi verið á fundur í Þingvallanefnd sem enginn í stjórnarandstöðunni gat tekið þátt í. Þingflokksformaður minn sá sér t.d. ekki fært að sitja umræddan nefndarfund sem framsögumaður málsins gat þó setið. Ég óska eftir því (Forseti hringir.) að það sé skýrt hvort hv. þingmaður er ekki örugglega í salnum og hyggist ekki vera með okkur í dag. Það væri líka mjög ánægjulegt ef hægt væri að kalla fleiri ráðherra inn í salinn.