138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Mönnum varð tíðrætt hér í gær um að orðaskakið á þingi væri orðið nokkuð harkalegt og má segja að hinir ótrúlegustu siðapostular hafi allt í einu fundist á meðal stjórnarliða sem hófu að kveinka sér undan gagnrýni. Það kann vel að vera að sum gagnrýnin hafi verið hörð og snörp en það er líka ástæða til því að fólki er misboðið. Fólki er algjörlega misboðið hvernig haldið hefur verið á málum varðandi Icesave-samningana í þessu stærsta milliríkjadeilumáli síðari ára. Fólki er algjörlega misboðið, og svo misboðið að núna er hafin undirskriftasöfnun til að fá forseta Íslands til þess að hafna því að staðfesta lögin sem verða vonandi ekki samþykkt, en hugsanlega samt.

Allt snýr þetta að vinnubrögðum og ég gat þess hér í gær að oft er maður spurður hvort ekki sé hægt að breyta vinnubrögðunum á þingi, hvort ekki sé hægt að hafa þetta með öðrum hætti. Jú, það er hægt. Ég dró það sérstaklega fram í gær að manni yrði stundum hugsað til þess að ef fyrstu tveir stafir í nafni hæstv. forsætisráðherra væru teknir frá stæði eftir nafnið Hanna og þá leitaði hugurinn yfir til borgarinnar þar sem ræður ríkjum Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri sem hefur sýnt að það skiptir einmitt öllu máli að þeir sem leiða verkstjórnina búi yfir nýrri hugsun, nýrri nálgun í orði og á borði. Það hefur hún svo sannarlega sýnt, en það hefur ekki gerst með þeirri verkstjórn sem var boðuð í landsmálunum. Það var boðuð ný verkstjórn, það var boðað að farið yrði í málin með öðrum hætti en það sem við höfum upplifað í stjórnarandstöðunni er að á þessum skamma tíma held ég að aldrei hafi jafnlítið samráð verið haft við stjórnarandstöðuna. Það er reynt að knýja í gegn hvert stórmálið á fætur öðru og ég fór yfir það hér í gær, allt frá stjórnarskránni yfir í fiskveiðistjórnarkerfið og skattamálin svo ég ræði nú ekki ESB og síðan akkúrat þetta mál sem hér er til umfjöllunar.

Vinnubrögðin öll eru þannig að fólki er misboðið og þess vegna hvessir á stundum hér í þessum ræðustól því að það er um gríðarlega hagsmuni að ræða, hagsmuni þjóðarinnar og framtíðarkynslóðar þessa lands. Þá er ekkert óeðlilegt að menn spyrni við fótum og þá geta ráðherrar í ríkisstjórn eða stjórnarliðar ekki komið hérna upp með predikunartón og sagt okkur að vera róleg og halda okkur til hlés þegar við erum að ræða jafngríðarlega stórt og -mikið mál og Icesave-málið er.

Talandi um vinnubrögð, það var nefnilega einkennandi í sumar þegar þingið sýndi einmitt þau nýju vinnubrögð sem hafði verið kallað eftir. En hvað gerir ríkisstjórn Íslands? Hún virðir þau vinnubrögð í rauninni að vettugi og kemur heim í haust aftur með skottið á milli lappanna þar sem búið er að gjörbylta málinu. Við erum nefnilega að tala um algjörlega nýtt mál þar sem er búið að kollvarpa öllum okkar fyrirvörum sem við lögðum mikla vinnu í í sumar til að ná í gegn. Þess vegna er svo sárt að sjá ríkisstjórn Íslands fara fram með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ég held einmitt að tíminn sem við tókum okkur í þetta mál hafi frekar hjálpað því í sumar. Þess vegna held ég líka og treysti því að við fáum enn frekari tíma í nefndum þingsins á milli 2. og 3. umr. þar sem menn verða kallaðir til. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur dregið það fram að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hefur skrifað stjórnlagasérfræðingum bréf til að fara yfir ákveðna þætti og það skiptir gríðarlega miklu máli að menn gefi sér tíma, að menn flani ekki að neinu því að mjög rökstuddar ábendingar hafa komið fram, t.d. frá stjórnlagasérfræðingnum okkar helsta, Sigurði Líndal, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, að það séu meiri líkur en minni á að þetta mál allt eins og það liggur fyrir stangist á við stjórnarskrá. Það sem við erum að kalla fram er að við látum stjórnarskrá njóta vafans, gefum okkur tíma til að fara yfir málið í heild sinni, skoðum það vel og athugum hvort þessi ábyrgð eins og hún liggur fyrir stangist ekki á við stjórnarskrá.

Af hverju erum við að segja það? Af því að hún er takmarkalaus eins og segir í grein Sigurðar Líndals þar sem hann bendir okkur á að fara betur yfir málið allt. Hann segir, með leyfi forseta:

„Merkilegt má heita að í þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið virðist ekkert hafa verið fjallað um hversu langt heimildir löggjafans ná til að skuldbinda íslenska ríkið (og þá um leið þjóðina) með þessum hætti — hvort ekki sé óhjákvæmilegt að setja slíkum skuldbindingum, sem allt bendir til að verði mjög þungbærar, einhver takmörk eins og leitast var við að gera í lögum nr. 96/2009“ — þ.e. lögunum sem við í stjórnarandstöðunni lögðum okkur fram um að ná í gegn og breyta. — „Og þá hlýtur stjórnarskráin að koma til skoðunar.“

Þetta eru þung viðvörunarorð að mínu mati frá prófessornum sem við verðum að taka til skoðunar og þess vegna fagna ég því sérstaklega að menn skuli kalla til stjórnlagasérfræðinga okkar og þá hvet ég líka til þess að nefndir þingsins fái þann tíma sem þær þurfa á að halda til þess að fara yfir þá þætti sem hefur verið bent á. Eins og ég gat um áðan hefur tíminn hjálpað okkur í þessum málum núna. Ég held að það sé eitt og annað sem segi við okkur að það séu rauð ljós alls staðar, úti um allt. Menn segja við okkur: Slakið á, ekki ýta þessu máli af stað.

Hvaða fleiri rauðu ljós eru? Jú, að sjálfsögðu þær ábendingar aðrar varðandi stjórnarskrána sem gefa skýrt til kynna að um hafi verið að ræða ólögmætt framsal dómsvalds til yfirþjóðlegrar stofnunar sem er EFTA-dómstóllinn. Íslenskir dómstólar hafa ekkert í rauninni um málið að segja fyrr en þeir eru búnir að fá ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum. Það er verið að senda dómsvaldið úr landi með þessu, ég held að það blasi við. Þess vegna finnst mér miður að sjá að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra skuli leyfa sér að segja að það sé ekki um neitt framsal dómsvalds að ræða. Ég mótmæli því harðlega.

Hvaða önnur rauðu viðvörunarljós hafa kviknað sem segja okkur að slaka á og ekki ganga frá málinu eins og það liggur fyrir þinginu núna? Það eru lög í landinu, þau gilda enn þá, lög sem við náðum í gegn í sumar og þau gilda enn þá, sýna a.m.k. að við erum reiðubúin til að ganga eins langt og hægt er til að standa við skuldbindingar okkar. Þó að þær séu óljósar eins og dregið hefur verið fram höfum við engu að síður gert okkar til að standa undir ákveðnum skuldbindingum og meðan þau lög eru í landinu þurfum við ekki að flýta okkur með þetta mál, það er alveg deginum ljósara.

Hvaða önnur rauðu viðvörunarljós? Það er alveg ljóst og hver þingmaður Evrópuþingsins á fætur öðrum og forráðamenn í fjármálaheiminum í Evrópu, innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, o.fl. hafa áttað sig á að regluverk Evrópusambandsins varðandi fjármálakerfið er meingallað. Ég ræddi m.a. um bréf frá þingmanninum Stéphane Le Foll, sem er franskur sósíalisti á Evrópuþinginu, þar sem hann dregur sérstaklega fram að þeir leggi áherslu á það, frönsku sósíalistarnir, að það verði að fara strax yfir fjármálaregluverkið allt í heild sinni því að það sé svo gallað.

Við vitum að tilskipanir Evrópusambandsins hafa verið í endurskoðun. Ég er ekki viss um að það sé algjörlega búið að fullgilda þær en þær eru í endurskoðun, það er verið að gera það þessar vikurnar. Af hverju getum við ekki beðið og séð hvað kemur út úr því? Helsta ástæða þess að við vorum beitt svona miklum þrýstingi á sínum tíma af hálfu Breta og Hollendinga, og annarra þjóða líka, var sú að þessar þjóðir með sínar miklu fjármálamiðstöðvar, eins og Bretarnir með London, voru hræddar við að látið yrði reyna á evrópsku reglurnar í fjármálaheiminum. Þær voru smeykar við að það mundi draga fram hversu gallaðar þessar reglur eru og það gæti haft í för með sér miklar og afdrifaríkar afleiðingar fyrir fjármálamiðstöðina London og fleiri fjármálamiðstöðvar um Evrópu, eins og t.d. Frankfurt. Það voru miklir hagsmunir hjá þessum þjóðum að reyna að sneiða hjá því að Ísland mundi leita réttar síns fyrir dómstólum þar sem nákvæmlega þetta yrði dregið fram.

Það var helsta ástæðan fyrir því að þrýstingur var settur á okkur og menn eru farnir af stað í þá vegferð að breyta þessu. Þess vegna hefur því ekki verið svarað núna af hálfu ríkisstjórnar Íslands hvað liggur á. Hún er búin að segja það í sumar, þurfti að ýta því af stað, þessu máli þyrfti að ljúka. Við erum öll sammála um það en við sjálfstæðismenn höfum hins vegar sagt, og aðrir í stjórnarandstöðunni: Ekki fyrir hvað sem er. Því hefur ekki verið svarað með rökstuddum hætti af hverju við eigum að klára málið núna. Hvað liggur svona óskaplega á? Ég hef ekki heyrt því svarað, ég hef ekki heyrt neinn stjórnarliða — og er nú einn mættur í salinn — greina okkur frá því af hverju það liggur svona mikið á núna. Það lá á í sumar, síðan kom í ljós að það var bara allt í lagi að þingið tæki sér þennan tíma til að fara yfir málið og laga það. Það sama gildir að sjálfsögðu núna.

Ég trúi því ekki að öllu óreyndu að nefndir þingsins fái ekki þann tíma sem þær þurfa á að halda til að fara m.a. yfir þá annmarka sem tengjast stjórnarskránni, en líka yfir þá efnahagslegu fyrirvara sem við verðum að setja inn í málið og settum í málið í sumar en ríkisstjórn Íslands hefur feykt burt af borðinu. Þess vegna er mikilvægt að menn kalli líka til efnahags- og skattanefnd til að fara yfir málið með m.a. Seðlabanka Íslands. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Við þurfum líka að fá fram af hverju það sé betra að vera með fasta vexti en breytilega og menn verða að fara yfir þær röksemdir sem m.a. hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur sett fram í sínu máli.

Það er hægt að fara yfir marga þætti þessa máls og mér hefur iðulega orðið tíðrætt um vinnubrögðin af því að þau birtast í svo mörgum málum, ekki bara þessu. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum þegar menn lesa yfir nefndarálitin frá minni hlutunum að þeir sem hafa verið fyrir okkar hönd í fjárlaganefnd, okkar fulltrúar, fái ekki að kalla til gesti, að þeim sé meinað að kalla til gesti á fund nefndarinnar. Hvað er verið að fela? Allt þetta mál gerir fólk tortryggið, hvernig að því er staðið. Af hverju mega menn ekki kalla til gesti til að fara yfir t.d. fullyrðingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrum formanns Samfylkingarinnar? Hvað er svona óþægilegt við að heyra sjónarmið hennar? Svo reynir hæstv. forsætisráðherra í sinni ræðu, sinni einu ræðu sem hún hefur flutt í þessu máli, að útskýra hvað fyrrum formaður Samfylkingarinnar meinti með orðum sínum. Af hverju fáum við þingmenn ekki einfaldlega að kalla fyrrverandi formann Samfylkingar til?

Síðan er alveg með ólíkindum hvernig stjórnarliðar hafa haldið á þessu máli innan fjárlaganefndar. Það er beðið um nefndarálit af hálfu fjárlaganefndar frá efnahags- og skattanefnd, að hún taki sérstaklega efnahagslega þætti samninganna við Holland og Bretland til umfjöllunar. Það gerði hún einmitt. Ég veit að okkar fólk í efnahags- og skattanefnd lagði mikla vinnu í að fara yfir efnahagslegu áhrifin og það er greinilegt að fleiri hafa lagt mikla vinnu í þetta því að fjögur álit komu frá efnahags- og skattanefnd — sem sýnir náttúrlega gríðarlega mikla samstöðu meðal stjórnarliða. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson gátu ekki annað en skilað sérstaklega sínu áliti af því að þau eru ósátt við málið eins og það liggur fyrir. Það hefur einmitt ekki verið farið í þá þætti hér og þeim breytt sem m.a. þau hafa lagt áherslu á að væru og yrðu erfiðir fyrir þjóðina að standa undir til lengri tíma litið.

Hvað gerist þegar fjárlaganefndin fær síðan fjögur álit frá efnahags- og skattanefnd? Þau eru ekki einu sinni lesin, það er ekki farið yfir þau. Hvaða vinnubrögð eru þetta? Enn og aftur komum við að þessum vinnubrögðum og viðhorfi stjórnarliða til starfs þingmanna. Það er lagt í mikla vinnu í einni nefndinni, beðið um þá vinnu. Það er óskað eftir þeirri vinnu af hálfu fjárlaganefndar og síðan er bara ekkert gert með hana. Við viljum ekki heyra óþægilegu hlutina. Það má nefnilega aldrei segja óþægilegu, erfiðu hlutina á Alþingi. Þá er reynt að sussa á mann, þá er gengið úr sal, fólki misboðið ef við segjum einfaldlega að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig í stykkinu, hafi ekki gætt íslenskra hagsmuna. Hún hefur ekki gert það, ég segi það enn og aftur. Eftir að þingið var búið að taka málið í sínar hendur í sumar og gera það sem hægt var að gera fékk ríkisstjórnin málið aftur og hún glutraði því frá sér og kom heim aftur í haust með ömurlegan samning eins og Chamberlain gerði forðum. Allir vita hvernig sá samningur var og ég held að þessi samningur sé álíka mikil hörmung fyrir íslenska þjóð.

Þegar farið er yfir samninginn er alveg ljóst að áhættan er öll okkar megin. Þrátt fyrir þessa miklu meinbugi á evrópska regluverkinu og þá miklu áhættu sem Bretar og Hollendingar voru að reyna að forðast að yrðu dregnir fram samþykkir íslenska ríkisstjórnin engu að síður, vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, að taka alla áhættuna sín megin. Ég hef ekki séð hvaða áhættu Bretar og Hollendingar hafa tekið á sig. Hafa ráðherrar greint frá því hvað áhættu Bretar og Hollendingar taka á sig með þessu máli? Ég hef ekki fengið svör við því. Ég held að hv. þingmenn, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, hafi ekki heldur fengið svör við því hvað áhættu Bretar og Hollendingar hafa tekið á sig í málinu. Enga. Enda er íslenska ríkisstjórnin búin að gefast upp.

Það er enginn sem getur skilið af hverju hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið þvílíka kollsteypu á innan við ári í þessu máli. Í janúar á þessu ári sagði hæstv. ráðherra m.a. í Morgunblaðsgrein að það væri enn þá hægt að koma í veg fyrir þennan mikla skuldaklafa.

Hann sagði m.a.:

„Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir.“

Það er alveg hárrétt. Þess vegna skilur maður ekki hvað honum gengur til og maður hefur ekki enn þá fengið útskýringar á því af hverju hæstv. ráðherra tekur þessa kollsteypu. Kjarninn er sá að það er verið að taka á sig skuldbindingar sem ríkisstjórn Íslands hefur engu að síður sagt að hún þurfi ekkert að gera. Samt gerir hún það í staðinn fyrir að láta á það reyna.

Það er alveg hárrétt sem hefur komið fram hjá formanni Sjálfstæðisflokksins í þessu máli, eins og það liggur fyrir núna er eins og við hefðum farið með málið fyrir dóm og jafnvel lítur málið enn þá verr út en ef við hefðum farið með málið fyrir dóm og beðið ósigur. Málið er agalegt eins og það lítur út og það er sorglegt að sjá hvernig stjórnin hefur staðið að þessu öllu saman.

Ég hef líka velt fyrir mér í ljósi bréfaskipta hæstv. forsætisráðherra við Gordon Brown — sem hún vildi sjálf ekki birta og hafði ekkert frumkvæði að því að birta. Það þurfti náttúrlega að draga það mest í gegnum fjölmiðlana eins og gengur og gerist — hvort að með því að sýna ekki frumkvæði að því að birta bréfin hafi hún ekki áttað sig á því að forræði málsins er í rauninni ekki hjá ríkisstjórninni heldur hjá þinginu. Þess vegna verðum við, þingmenn í stjórnarandstöðu, að standa vaktina og reyna að koma í veg fyrir þennan óskapnað. Það gerðum við í sumar, (Forseti hringir.) við náðum að laga það og ég er enn þá bjartsýn og horfi bjartsýn til framtíðar því að þessu máli, frú forseti, verður að breyta. Það verður að stoppa þetta.