138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Ég deili vissulega áhyggjum hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar af þessu máli og Sigurðar Líndals og margra, margra annarra, að verið sé að fara á svig við stjórnarskrána. Enn þá sorglegra er að sjá ríkisstjórn Íslands skella skollaeyrum við öllum þessum viðvörunum. Við erum vön því að ekki sé hlustað á okkur stjórnarandstöðuþingmenn, og nokkuð vön því, en að hlusta ekki á stjórnlagasérfræðing Íslands, Sigurð Líndal, í þessu máli er náttúrlega ömurlegt að horfa upp á. Það má í rauninni líka segja að við séum búin að upplifa það núna hvernig meiri hlutinn í þinginu svarar þessari ósk okkar, beiðni okkar um að gera strax hlé á þinginu.

Ég vil ítreka það að við sjálfstæðismenn höfum sagt að við séum reiðubúin til að gera strax hlé á þessari umræðu til að hleypa öðrum málum ríkisstjórnarinnar að. Hversu ömurleg sem þau eru erum við engu að síður reiðubúin til að gera strax hlé á umræðunni þannig að skattafrumvörp og önnur frumvörp ríkisstjórnarinnar komist að. Ríkisstjórnin hefur sagt nei við þessu. Hún hefur líka sagt nei við því að við gerum hlé á Icesave-umræðunni til að fara yfir ábendingar Sigurðar Líndals og mér finnst það í rauninni vera táknmynd þess hvert viðhorf ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á þinginu er gagnvart stjórnarskránni. Þau láta stjórnarskrána aldrei njóta vafans. Það hafa þau sýnt í orðum sínum og athöfnum og hvernig þau hafa afgreitt óskir okkar stjórnarandstöðuþingmanna um að gera hlé á þessu máli til þess sérstaklega að fara yfir stjórnarskrárviðvaranir mætra manna í samfélaginu.

Ég vil sérstaklega draga það fram að ég óska þess þá að nefndir þingsins, fjárlaganefnd og aðrar þær nefndir sem verða kallaðar til, fái þann tíma sem þær þurfi til að fara yfir þær (Forseti hringir.) alvarlegu ábendingar sem settar hafa verið fram í samfélaginu. Ég beini því til (Forseti hringir.) forseta að forseti beiti sér fyrir því að nefndir þingsins og nefndarmenn fái tíma til að fara yfir málin.