138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil biðja forláts á því að hafa ekki gætt að því að ávarpa forseta í upphafi míns fyrra svars áðan. Ég bið forláts á því og skal gæta þess að það komi ekki fyrir aftur.

Varðandi Brussel-viðmiðin er alveg ljóst, frú forseti, að það er verið að fara á svig við þau. Það er ekki verið að uppfylla Brussel-viðmiðin í þessu og það þýðir ekki fyrir ríkisstjórn Íslands að setja í skjalið: Það er verið að uppfylla Brussel-viðmiðin. Það er bara ekki verið að að gera það.

Ég vil meina það líka að bæði með því að setja þetta fram með þessum hætti og í bréfaskiptum hæstv. forsætisráðherra við forsætisráðherra Bretlands, þar sem undirstrikað er að verið sé að gæta Brussel-viðmiðanna, þá er verið að rýra réttarstöðu Íslands í hugsanlegum málaferlum síðar meir, því að ekki er farin sú leið sem Brussel-viðmiðin kveða á um. Það er ekki tekið tillit til erfiðrar stöðu hér heima og það er eins gott að það verði sagt oft hér, (Forseti hringir.) þannig að það fari inn í þingtíðindin og menn átti sig á að við erum algjörlega ósammála því að tekið sé tillit til efnahagslegrar og erfiðrar stöðu Íslands.