138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé tilefni til að hafa matarhlé. Ég minnist þess ekki, á þeim sex árum sem ég hef setið í þinginu, að hádegisverðarhléi sé sleppt nema þá hugsanlega í einhverjum tilvikum þegar forseti ætlar hvort sem er að ljúka fundi eftir einn eða tvo tíma. Af þessu tilefni er eðlilegt að spyrja hæstv. forseta hver áform hennar eru í þessum efnum, bæði varðandi matarhléið, sem kannski skiptir ekki höfuðmáli nema ætlun forseta sé sú að fundur standi lengi fram eftir degi.

Ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi þetta þannig að við getum, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi hér áðan, reynt að skipuleggja okkur. Það er ljóst öllum sem til þekkja að það er þó nokkuð eftir af þessari umræðu, ýmsir stjórnarandstæðingar eiga eftir að taka til máls. Við hljótum jafnframt að gera ráð fyrir því að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og hæstv. ráðherrar (Forseti hringir.) eigi eftir að svara þeim fjölmörgu spurningum sem til þeirra hefur verið beint.