138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:23]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það eru ákveðin tímamót í lífi mínu frá því að ég tók sæti á þingi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer upp undir liðnum um fundarstjórn forseta. Ástæður þess eru einfaldlega þær að þessi liður er m.a. nýttur til þess að teygja lopann, við skulum bara horfast í augu við það eins og það er, og hefur alla tíð verið nýttur þannig.

Í umræðum um þetta mál undanfarna daga hefur gengið á ýmsu. Mér finnst með ólíkindum það háttalag hæstv. forseta að fella málið í þann farveg að við þurfum að fara að þrátta hér um matarhlé, ekki síst þegar á borðum er soðin ýsa, öndvegismatur. Ég skil ekki til hvers verið er að bjóða upp í þennan dans, þetta er spurning um hálfa klukkustund. Ég kýs að líta þannig á því miður að verið sé að efna til ófriðar enn frekar að ástæðulausu. Ég skora því á (Forseti hringir.) hæstv. forseta að endurskoða þessa ákvörðun sína.