138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni andsvarið og vil fyrst taka til að það sem ég nefndi hér áðan í ræðu minni varðandi ósk hv. formanns fjárlaganefndar sem lýtur að spurningunni um stjórnarskrárákvæðið byggir á grein Sigurðar Líndals í Fréttablaðinu þar sem hann fjallar um þetta út frá ríkisábyrgðinni sjálfri. Ég var í ræðu minni að óska eftir því við hv. formann fjárlaganefndar að hann sendi til sömu lögspekinga sambærilegt erindi — og mér finnst það eðlilegt — sem lýtur að spurningunni um framsal dómsvalds gagnvart þar að lútandi stjórnarskrárákvæðum.

Það er hárrétt sem kom fram í máli hv. þingmanns hér varðandi þá óvissu sem er uppi í þessu. Ég er þeirrar skoðunar að þeir efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi setti á ríkisábyrgðina fyrr í sumar, hafi tryggt þjóðina gagnvart þeim áföllum sem hugsanlega kunna að verða. Það skal undirstrikað að í máli allra þingmanna sem þetta hafa rætt er óbilandi trú á getu íslenskrar þjóðar til þess að takast á við verkefni sín. Engu að síður liggur það í sögu þjóðarinnar að við verðum fyrir áföllum af ýmsu tagi, einfaldlega vegna þess í hvernig landi við búum og á hvaða auðlindum við byggjum tilveru okkar. Það er fyrir fram vitað að við eigum eftir að lenda í áföllum, það er bara spurning um hvenær þau verða, hvers eðlis þau verða o.s.frv. Og undir það þurfum við að vera búin.

Frumvarpið eins og það liggur fyrir veikir vörn Íslands í því stríði sem fram undan er. Það er óumdeilt í mínum huga og varnaglarnir gagnvart því að við lendum í áföllum, eru alls ekki nægilegar miklir. Því miður. Úr þeim hefur verið dregið og þess vegna hef ég deilt áhyggjum manna, m.a. hv. þm. Péturs H. Blöndals, um það hvernig búið er að sveigja þessa efnahagslegu (Forseti hringir.) fyrirvara til óbóta fyrir málið.