138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er gott að vita til þess að forseti ætlar að setjast niður með þingflokksformönnum til að ræða þessi mál. Vonandi kemur eitthvað skynsamlegt út úr því. Við hljótum öll að vera sammála um að það er eðlilegt að haga þingstörfum með skynsamlegum hætti, skipuleggja vinnu okkar af einhverju viti.

Ég treysti því að þá verði líka tekið upp aftur það atriði sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, vakti athygli á varðandi það að það er leikur einn að breyta dagskrá þannig að þau mikilvægu mál sem tengjast fjárlögunum fái umræðu og fari til nefndar á tiltölulega skjótan hátt. Það hlýtur að vera öllum áhugaefni að það geti gerst. Þó að frumvörpin sem slík séu ekki ánægjuefni og maður geti haft mjög miklar athugasemdir við einstök efnisatriði þeirra er ljóst að þau þurfa að fá (Forseti hringir.) umfjöllun í nefnd sem fyrst. Það væri skynsamlegt vinnufyrirkomulag hér á þinginu að ríkisstjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) tækju þessu tilboði stjórnarandstöðunnar því það mundi greiða fyrir störfum þingsins (Forseti hringir.) svo miklu munaði.