138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ágætt að vita til þess að það eigi að verða fundur þingflokksformanna í dag. En hin augljósa spurning er þessi: Hvers vegna í ósköpunum setjum við þann fund bara ekki á núna strax og hefjum þann fund, ákveðum fyrirkomulag umræðunnar sem eftir er í dag, hversu lengi hún eigi að standa? Þá þurfa menn ekkert að vera í þeim leik að kalla eftir því að slíkir fundir verði haldnir. Það er ekki nóg að segja, frú forseti, að það verði haldinn fundur einhvern tíma í dag. Hvers vegna í ósköpunum höfum við þetta ekki eins og „hjá eðlilegu fólki“, eins og maður mundi kannski segja, og vinnum þessa hluti eðlilega?

Í kosningabaráttunni síðustu var mikið talað um hina mikilhæfu verkstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem nú er hæstv. forsætisráðherra, og ég verð að segja eins og er að ég kalla mjög eftir því að hér verði betri verkstjórn með þessa hluti, að við séum ekki að lenda í karpi, að ekki sé tekið eðlilegt matarhlé og hægt sé að halda fundi með þingflokksformönnum á eðlilegum tíma til þess að ákveða framhald dagsins, laugardags, o.s.frv. Allt eru þetta eðlilegar og skynsamlegar kröfur stjórnarandstöðunnar um það að þingið (Forseti hringir.) virki og gangi eðlilega fyrir sig. Það eiga allir að geta verið sammála um, bæði stjórn og stjórnarandstaða.