138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ákveðin ósanngirni fólgin í því að virðulegur forseti sé í forsetastóli þegar við tökum þessa umræðu. Það hefði verið nær að forseti Alþingis hefði setið hérna og getað svarað þessum spurningum sem við berum upp.

Eftir að forseti Alþingis var kosin af öllu þinginu tiltók hún sérstaklega í lokaorðum ræðu sinnar mikilvægi þess að reyna að byggja upp fjölskylduvænan vinnustað og ég vænti þess að þar hafi hún átt við það að halda vel utan um skipulag þingsins. Efndirnar hafa hins vegar verið nákvæmlega engar. Þegar við fórum síðast upp, þegar forseti sat í forsetastóli, bárum við upp margar spurningar og forseti sá sér ekki fært að svara einni einustu af þeim spurningum, annað en að benda þingmönnum á að þeir gætu skotist út úr þingsal, þar sem þeir eru að hlusta á ræður, og fengið sér að borða ef þeir hefðu áhuga á. (Forseti hringir.)

Ég óska því eftir því að forseti komi í þingsalinn og svari þeim spurningum sem verið er að bera upp og útskýri líka hvernig stendur á (Forseti hringir.) því að verið er að hunsa málfrelsi þingmanna þegar þeir óska eftir að taka til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta.