138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir athyglisverða ræðu, hægt er að taka undir margt, annað kannski ekki. Mér fannst svo gott hvernig hv. þingmaður nálgaðist viðfangsefnið og hve heiðarleg hún var í nálgun sinni. Það er voðalega gott fyrir alla sem hér eru að hlusta á slíkar ræður Þess vegna fannst mér sárt þegar ég leit yfir salinn, frú forseti, að sjá ekki þingmenn sem hefðu einmitt haft svo gott af því að hlusta á ræðuna, hvort sem það eru sjálfstæðismenn eða — og ekki síður — Vinstri grænir.

Hér eru aðeins þingmenn í stjórnarandstöðunni, sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, Hreyfingin, en Vinstri grænir hefðu einmitt haft gott af því að hlusta á þá brýningu í rauninni. Þetta var gagnrýni, já, en mér fannst þetta líka vera brýning til þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að standa í lappirnar, að minnast hugsjónanna, fyrir hvað menn voru kosnir. Við verðum sífellt að minna okkur á það.

Hins vegar vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hún hefur verið ötul í að hvetja til samstöðu í þessu máli, svipaðrar samstöðu og við náðum í sumar, við lögðum okkur öll fram um að gæta íslenskra hagsmuna, en hún hefur verið ötul í því að hvetja til þess að þingið sendi út nefnd til Evrópusambandsins, Evrópusambandslandanna, til að kynna málstað okkar. Telur þingmaðurinn, í ljósi málsmeðferðar á þinginu, að þetta sé í fyrsta lagi mögulegt og hvort þetta sé nokkuð of seint? Hvort við höfum ekki samt sem áður þörf fyrir að kynna málstað Íslands í þeirri ömurlegu stöðu sem við höfum staðið frammi fyrir í þessu hræðilega mál?